140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

tímasett áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga.

220. mál
[16:35]
Horfa

Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um að Alþingi álykti að fela velferðarráðherra í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga að setja fram markvissa, heildstæða og tímasetta áætlun um yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga og að áætlunin skuli liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2012.

Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lúðvík Geirsson, Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir.

Virðulegur forseti. Þessi tillaga er lögð fram til þess að efla, samhæfa og samræma nærþjónustu við íbúa landsins í heimabyggð sinni. Þegar eru á hendi sveitarfélaga stórir málaflokkar sem teljast til nærþjónustunnar svo sem leikskólinn, sem reyndar er ekki lögbundið verkefni, en einnig lögbundin verkefni eins og grunnskólinn, félagsþjónusta og málefni fatlaðra, sem voru færð voru til sveitarfélaganna um síðastliðin áramót. Fyrirhugað er að færa málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga innan tíðar.

Það er mín skoðun að samþætting nærþjónustu við íbúa muni stuðla að heildstæðari og um leið bættri þjónustu við einstaklinga sem þurfa á þjónustunni að halda í daglegu lífi og ég tel að sveitarfélögin séu betur í stakk búin en ríkið til að laga nærþjónustuna að þörfum notenda með hliðsjón af ólíkum aðstæðum íbúa.

Ráðherra hefur nú þegar samkvæmt lögum heimild til að fela sveitarfélagi eða öðrum aðilum að sjá um framkvæmdir og rekstur tiltekinna þátta þeirrar heilbrigðisþjónustu sem veita skal. Sem dæmi um samninga af þessu tagi má nefna þjónustusamning við Akureyrarbæ um rekstur Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri og þjónustusamning við Sveitarfélagið Hornafjörð um rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Ýmis fleiri sveitarfélög hafa óskað eftir áþekkum samningi en af því hefur ekki orðið einhverra hluta vegna.

Ég tel ástæðu til að skoða sérstaklega með hvaða hætti unnt verði að vinna með sveitarfélögum er hafa samvinnu um skipulag og framkvæmd heilsugæslunnar nú, en nú er heimilt að fela einu þeirra skipulag og framkvæmd hennar og tekur þá viðkomandi sveitarfélag ákvarðanir um þjónustuna fyrir hönd annarra sveitarfélaga á svæðinu. Í þeim efnum er vert að horfa til þeirrar útfærslu sem byggt var á við yfirfærslu á málefnum fatlaðra, þ.e. með myndun skilgreindra þjónustusvæða og þjónustusamninga milli einstakra sveitarfélaga.

Það er nauðsynlegt að sjálfstæð gagnaöflun á gæðum heilsugæslunnar, starfsmannamálum og meðferð fasteigna verði sá faglegi og fjárhagslegi grunnur sem er nauðsynlegur svo að yfirfærslan geti orðið árangursrík. Enn fremur verður að gera ráð fyrir eftirliti með þeirri þjónustu sem er áætlað að veita og faglegu og fjárhagslegu endurmati á árangri tilfærslunnar.

Virðulegur forseti. Samhliða yfirfærslu heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga tel ég brýnt að fara í endurskoðun á þeim greinum heilbrigðislaga sem snerta heilsugæsluna og þá þjónustu sem þar ber að veita. Skilgreining hugtaksins heilsugæsluþjónusta er nokkuð víðtæk og gera þarf ráð fyrir því, ef um yfirfærslu verður að ræða, að nánar verði mælt fyrir um það í nýrri reglugerð hvaða þjónustu skuli almennt veita á heilsugæslustöðvum og þá hvort tiltekna sérhæfða heilbrigðisþjónustu skuli veita á einstökum heilsugæslustöðvum. Sömuleiðis er ástæða til að fara í heildarendurskoðun á lögum um málefni fatlaðra sem og lögum um félagsþjónustu til þess að samþætting nærþjónustu við íbúa verði byggð á traustum grunni.

Virðulegur forseti. Þar sem þegar er áætlað, eins og kom fram í ræðu minni, að færa málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga verða þrír meginþættir, þ.e. félagsþjónusta, málefni aldraðra og málefni fatlaðra, á verksviði sveitarfélaganna. Því er afar skynsamlegt, frú forseti, að heilsugæslan verði sömuleiðis færð frá ríki til sveitarfélaga. Heilsugæslan er fyrsti viðkomustaður þeirra sem þurfa á læknisþjónustu að halda, það eru oft börn, aldraðir og fatlaðir. Þess vegna er brýnt, til að hægt sé að veita heildræna, samfellda nærþjónustu við íbúa sérhvers sveitarfélags, að við færum verkefni heilsugæslunnar frá ríki til sveitarfélaga. Það ætti ekki að vera ágreiningur, frú forseti, í þeim málum vegna þess að allir tóku undir það í umræðunni um málefni fatlaðra og í velferðarnefnd var rætt um að nærþjónustan væri sú þjónusta sem byggja ætti á, og fyrsti viðkomustaðurinn er heilsugæsluþjónustan. Þess vegna, virðulegur forseti, legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni þessari umræðu. Það er svo sannarlega von mín að eftir umsagnir og umræðu fái tillagan brautargengi og komi aftur til síðari umr. og atkvæðagreiðslu. Ég tel brýnt að það sé gert áður en við færum málefni aldraðra frá ríki til sveitarfélaga.