Náttúruvernd

Þriðjudaginn 20. mars 2012, kl. 18:57:48 (6679)


140. löggjafarþing — 75. fundur,  20. mars 2012.

náttúruvernd.

225. mál
[18:57]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætar spurningar og vandaða reifun tiltekinna mála sem varða rétt landeigenda, einkum bænda. Það er sjálfsagt að ræða það betur í almennum ræðum hér af hálfu þeirra sem í nefndinni eru og ég tek fram að ég sakna nokkurra þeirra hér í salinn, fulltrúa Framsóknarflokksins, t.d. Ásmundar Einars Daðasonar, (Gripið fram í.) sem ég verð að segja að bar ekki fram þær spurningar sem nú eru bornar fram, og virðist með einhverjum hætti hafa verið fjarri í reynd eða huga þessu máli í vinnu í nefndinni. Það er auðvitað óheppilegt. Til þess eiga flokkarnir fulltrúa í nefndum að þeir geti komið sjónarmiðum sínum að og kallað á þá fulltrúa sem þeir vilja hlusta á. Það er einmitt mjög mikilvægt að sem flestir flokkar eigi aðkomu að nefndarstarfinu til að öll sjónarmið komist að.

Athugasemdir hv. þingmanns beinast einkum að þessum eina lið og hann ætti kannski að halda sig við hann því að ég verð að segja að athugasemdir hans um 37. gr. eru ekki mjög réttmætar. Hv. þingmaður virðist ekki hafa áttað sig á því að 37. gr. er ekki ný heldur er hún gömul sem sé og það er verið að endurbæta hana. Helstu breytingarnar eru þær að votlendi eru gerð miklu betri skil en áður var og þar að auki er bætt við birkiskógi. Votlendi er mjög mikilvægt, eins og hv. þingmaður nefndi, og það eru nefnd hér sem sérstök rök í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu, athugasemdunum, að þriggja hektara svæði nær aðeins til 60% óraskaðs votlendis nú en eins hektara svæði mundi ná til 95% óraskaðs votlendis.

Svo má alltaf spyrja: Af hverju einn hektari, af hverju þrír hektarar, af hverju ekki bara tíu hektarar? Það er vegna þess að við stefnum að því að bæta (Forseti hringir.) náttúru Íslands á þeim mjög mikilvæga punkti að auka votlendið, að vernda votlendið, og um það er fjallað bæði í athugasemdum við frumvarpið og í áliti nefndarinnar.