Skipan ferðamála

Miðvikudaginn 21. mars 2012, kl. 16:15:22 (6722)


140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

skipan ferðamála.

623. mál
[16:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála, með síðari breytingum. Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar sem snúa að stjórnsýslu ferðamála og hins vegar eru lagðar til breytingar er lúta að öryggi ferðafólks og eftirliti með þeim sem selja ferðir hér á landi.

Lagt er til að Ferðamálaráð verði lagt niður í núverandi mynd og í stað þess verði komið á fót samráðsvettvangi um ferðamál sem fær mun skýrara hlutverk en Ferðamálaráð hefur í gildandi lögum. Samsetning vettvangsins tekur mið af breyttu hlutverki þótt hann verði ráðherra áfram til ráðgjafar um málefni ferðaþjónustunnar. Nái frumvarpið fram að ganga munu Umhverfisstofnun, Vegagerðin og Félag leiðsögumanna fá fulltrúa á samráðsvettvangi um ferðamál en þessir aðilar gegna veigamiklu hlutverki í ferðaþjónustu.

Í frumvarpinu kemur fram að Ferðamálastofu sé ætlað að fara með markaðsmál ferðaþjónustu innan lands en Íslandsstofa hefur það hlutverk að laða til landsins erlenda ferðamenn. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Ferðamálastofu verði falin ný verkefni, svo sem að stofnunin fari með vörslu og rekstur Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða eins og fram kemur í lögum um sjóðinn nr. 75/2011, ásamt því sem Ferðamálastofu er falin umsjón með öryggisáætlunum.

Á undanförnum árum hafa orðið nokkur alvarleg slys á ferðafólki hér á landi. Til að bregðast við þessu er nauðsynlegt að gera auknar öryggiskröfur til þeirra aðila sem bjóða upp á ferðir hér á landi. Þannig eru í frumvarpinu ákvæði sem kveða á um skyldur aðila sem bjóða upp á ferðir innan lands til að útbúa og skila til Ferðamálastofu öryggisáætlun þar sem fram kemur mat á áhættu viðkomandi ferðar og lýsing á því hvernig viðkomandi aðili hyggst bregðast við beri vá að höndum í ferðinni. Nái frumvarpið fram að ganga fær Ferðamálastofa það verkefni að leiðbeina við gerð öryggisáætlana, skrá þær og birta. Þá mun Ferðamálastofa halda uppi eftirliti með því að ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur leggi fram öryggisáætlanir og leggi á sektir ef þær eru ekki fyrir hendi.

Gert er ráð fyrir að þessar kröfur muni auka öryggi ferðamanna sem fara í skipulagðar ferðir innan lands. Breytingarnar munu hafa það í för með sér að ferðaskipuleggjendur og aðrir leyfishafar þurfi að meta áhættu af ferðum sínum og útbúa viðeigandi viðbragðsáætlun en margir leyfishafar hafa reyndar þegar útbúið slíkar áætlanir. Þær auknu kröfur sem fram koma í frumvarpinu stuðla einnig að aukinni fagmennsku og betra skipulagi þeirra sem bjóða eða hyggjast bjóða upp á ferðir sem á einhvern hátt geta talist hættulegar. Í frumvarpinu er miðað við að sömu kröfur séu gerðar til allra þeirra sem bjóða upp á skipulagðar ferðir hér á landi. Þannig munu erlendir aðilar sem bjóða upp á ferðir hér á landi einnig þurfa að uppfylla kröfur frumvarpsins hvað varðar öryggisáætlanir. Ekki þykja rök fyrir því að gera aðrar kröfur til slíkra aðila.

Öryggisáætlanir eru alfarið á ábyrgð þeirra sem bjóða upp á skipulagðar ferðir hér á landi. Ferðamálastofa mun útbúa þar til gert eyðublað og veita viðeigandi leiðbeiningar til að auðvelda gerð og lestur öryggisáætlana. Standist öryggisáætlun augljóslega ekki kröfur laganna getur Ferðamálastofa hafnað móttöku hennar. Þá eru í frumvarpinu gerðar breytingar á skilgreiningu á hugtökunum ferðaskipuleggjandi og bókunarþjónusta, meðal annars vegna álitamála sem upp hafa komið. Jafnframt er lagt til að ferðaskipuleggjandaleyfi og ferðaskrifstofuleyfi verði tímabundin og er það til samræmis við aðra þætti ferðaþjónustunnar þar sem leyfi eru almennt tímabundin. Í tímabindingu leyfa felst ákveðið aðhald og með henni er eftirlit með skilyrðum leyfisveitingar í reynd gert reglubundið.

Í núgildandi lögum er það Ferðamálastofu að ákveða hvaða íslensk ferðafélög eru undanþegin ákvæðum laganna um leyfisveitingu hvað varðar ferðir innan lands. Lagt er til að greinin falli brott og að íslensk ferðafélög lúti sömu reglum og önnur ferðaþjónustufyrirtæki hvað leyfismál varðar. Mikil samkeppni er í ört vaxandi ferðaþjónustu hér á landi og margir hafa komið inn í greinina á síðustu árum. Kröfur um neytendavernd, öryggi, gæði og eftirlit fara vaxandi og því þykir ekki rétt að íslensk ferðafélög lúti öðrum lögmálum en ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Frumvarpið felur einnig í sér minni háttar breytingar er snúa að útreikningi á tryggingarfjárhæð og viðurlagaákvæði. Þá er fyrirkomulagi á gjaldtöku vegna útgáfu leyfa breytt í þá veru að gjaldið verði fastákveðið með lögum og renni í ríkissjóð en samkvæmt gildandi lögum innheimtir Ferðamálastofa þjónustugjöld vegna þjónustunnar í samræmi við gjaldskrá.

Þá er í frumvarpinu lagt til að gjald vegna útgáfu ferðaskrifstofuleyfis hækki úr 15 þús. kr. í 60 þús. kr., gjald vegna útgáfu ferðaskipuleggjandaleyfis hækki úr 10 þús. kr. í 45 þús. kr. og gjald fyrir bókunarþjónustu hækki úr 7.500 kr. í 15 þús. kr. Að auki er gert ráð fyrir að innheimt verði nýtt öryggisáætlunargjald sem verði 17 þús. kr. Þessi hækkun er vissulega töluverð en helgast af því að gjöldin hafa verið óbreytt frá því að lögin tóku gildi árið 2005 og hafa því hvorki fylgt verðlagshækkunum né auknum kostnaði vegna verkefnisins. Við ákvörðun gjaldanna var miðað við að þau standi undir árlegum rekstrarkostnaði hjá Ferðamálastofu vegna afgreiðslu á 300 leyfisumsóknum og öryggisáætlunum.

Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að þau taki þegar gildi en að leyfi sem voru gefin út fyrir gildistöku laganna skuli endurnýja eigi síðar en 1. janúar 2015. Við gerð frumvarpsins var haft samráð við ýmsa hagsmunaaðila, svo sem Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálaráð, Ferðamálastofu, Ferðafélag Íslands, Félag leiðsögumanna, Landsbjörgu, Neytendasamtökin og tollstjóra.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.