140. löggjafarþing — 77. fundur,  28. mars 2012.

fundarstjórn.

[01:45]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í örstuttu máli að gera grein fyrir þeim atburðum sem átt hafa sér stað hér á Alþingi Íslendinga síðustu tvo tímana. Hér var að ljúka umræðu um þingsályktunartillögu um stjórnarskrá þegar formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins krafðist atkvæðagreiðslu um hvort málið mætti ganga til nefndar. Það var rétt eftir miðnætti.

Þannig er mál með vexti að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar eru fjarverandi. Sá háttur er hafður á þegar menn sjá fram á atkvæðagreiðslur að svokölluð útpörun á sér stað. Stjórnarliðar gera þá samkomulag við þingmenn stjórnarandstöðunnar til að jafna hlutfallið. Það olli því að þingflokkur Samfylkingarinnar er ekki fullskipaður hér núna. Þess vegna hefur þingflokkur Samfylkingarinnar átt í erfiðleikum með að koma með öll sín atkvæði í hús.

Þegar þingmenn Samfylkingar komu í þingið í nótt brugðu sumir þingmenn stjórnarandstöðunnar á það ráð að fara úr húsi. Þess vegna hefur okkur ekki tekist að hafa yfir 30 þingmenn í þinghúsinu til að fullmanna þá atkvæðagreiðslu sem nauðsynlegt er.

Virðulegi forseti. Þetta er í raun og veru fáheyrður atburður og það er með eindæmum að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins skuli ástunda svona vinnubrögð (Forseti hringir.) á hinu háa Alþingi. Ef mönnum er nokkur alvara með að innleiða hér ný vinnubrögð, sátt og samvinnu í þessum þingsal svo menn nái árangri í stjórnmálum og sýni þjóðinni (Forseti hringir.) að þeir eru traustsins verðir til að sitja á þingi, þá koma menn ekki svona fram (Gripið fram í: Heyr, heyr.) við vinnufélaga sína sem starfa á Alþingi og (Forseti hringir.) reyna að vinna þjóðinni gagn.