Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 17:31:37 (7155)


140. löggjafarþing — 79. fundur,  28. mars 2012.

stjórn fiskveiða.

657. mál
[17:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú einmitt slík úttekt sem menn hafa vitnað til hér í umræðunni. Ég vil kannski fyrst og fremst leggja áherslu á það að sú gjaldtaka sem hér um ræðir er með engum hætti gjaldtaka á byggðirnar í landinu. Það er algjörlega fjarri öllu lagi vegna þess að veiðigjaldið, hið fasta gjald sem greitt er af greininni, hækkar í engu. Í engu er þrengt að því að greiddur sé rekstrarkostnaður, staðið í fjárfestingum, greitt af lánum og umtalsverðum arði skilað til eigendanna. Það er aðeins þegar mjög mikill hagnaður er í greininni, vegna þess að gengi krónunnar er mjög veikt og önnur fyrirtæki í landinu og fólk almennt býr við kröpp kjör, sem greinin þarf að leggja lítið eitt meira af mörkum. Ég tel að það sé sannarlega tilvinnandi fyrir það rekstraröryggi sem málinu fylgir.