Verðtryggð lán Landsbankans

Fimmtudaginn 29. mars 2012, kl. 10:48:47 (7339)


140. löggjafarþing — 80. fundur,  29. mars 2012.

verðtryggð lán Landsbankans.

[10:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag er fjallað um svokallaðan verðtryggingarjöfnuð sem er misvægi milli veðtryggðra eigna og verðtryggðra skuldbindinga fjármálastofnana, ef ég má orða það þannig. Þar kemur fram að verðtryggingarjöfnuður þessi hefur aukist á síðustu þrem árum um 132%. Þar kemur líka fram að sá banki sem eykur hvað mest þennan jöfnuð er ríkisbankinn Landsbanki Íslands. Einnig kemur fram að við hvert prósent sem verðbólgan fer upp hagnast þessi ríkisbanki um 1,3 milljarða kr.

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þessi staðreynd sem liggur á borðinu sé í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að draga úr vægi verðtryggingar. Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til að breyta þessu í bankanum sínum sem er ríkisbankinn Landsbankinn?

Það er mjög óeðlilegt og hlýtur að vekja upp spurningar hvort ríkisbankinn Landsbankinn spili með í því ferli öllu saman, heildarmyndinni um verðbólgumarkmið og annað sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru að vinna að. Það er nefnilega óeðlilegt að sjá eina lánastofnun skera sig mjög úr gagnvart hinum varðandi þetta og hefur þar af leiðandi varla mikinn hvata til að draga úr verðtryggingarvæginu meðan þetta er svona. Það vekur raunar athygli að bankinn virðist beina viðskiptavinum sínum inn í verðtryggð lán meðan aðrir virðast beina þeim eða bjóða í það minnsta upp á skýra valkosti varðandi (Forseti hringir.) óverðtryggð lán.