Veiðigjöld

Föstudaginn 30. mars 2012, kl. 11:50:40 (7585)


140. löggjafarþing — 81. fundur,  30. mars 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[11:50]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Framan af þessu kjörtímabili var mjög einkennandi, sérstaklega hjá hæstv. forsætisráðherra, að mikið kappsmál var að kollvarpa kerfinu með nýrri hugmyndafræði. Talað var fyrir því fyrir og eftir kosningar að innleiða nýtt kerfi og byrja á því að fyrna allar aflaheimildirnar. Það var ekki mikill sáttatónn í þeim hugmyndum, hvorki við útgerðina né við þau sjónarmið sem aðrir flokkar á þinginu töluðu fyrir. Hins vegar kom á daginn þegar upp var staðið að hugmyndin var óraunhæf og sem betur fer hefur verið horfið frá henni.

Nú eru fram komnar hugmyndir í þessum tveimur frumvörpum sem vissulega er hægt með góðum vilja að segja að allir flokkar hafi einhverja skoðun á og hafi ekki með öllu útilokað; annars vegar að hægt sé að hækka veiðigjaldið og hins vegar að tilefni sé til þess að taka lög um stjórn fiskveiða til einhverrar endurskoðunar. Markmiðið verður að vera að treysta rekstrarumgerð útgerðarinnar til langs tíma þannig að við getum skapað umgjörð sem laðar fram fjárfestingu og náð því langþráða markmiði að sýna fram á að útgerðin greiði sanngjarnt gjald, ekki bara í gegnum hina almennu skatta, heldur með sérstöku gjaldi.

Ég hef stigið hér upp í dag til að lýsa þeirri skoðun minni að hér hafi komið fram frumvörp sem ganga allt, allt of langt í því að taka gjald af útgerðinni. Ég vísa til þess eins og ég sagði fyrr í máli mínu að þetta jafngildi því að leggja 400 milljarða kr. nýja skuldsetning á útgerðina í landinu ef miðað væri við 5% vexti. Þetta eru svo miklar álögur. Menn hljóta að sjá, þegar þessar tölur eru settar í samhengi við slíka skuldsetningu, að ekki er við því að búast að umræðan geti byggst á því að hér sé um hóflegt gjald að ræða.