Aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði

Mánudaginn 16. apríl 2012, kl. 16:36:06 (7690)


140. löggjafarþing — 83. fundur,  16. apr. 2012.

aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

631. mál
[16:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og einnig það að vekja athygli á þessu málefni sem eru aðgerðir til lækkunar á húshitunarkostnaði.

Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi um afstöðu ráðherra til þeirra tillagna sem fram koma í skýrslu starfshóps um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar sem lögð var fram í desember síðastliðnum. Ég kýs að svara þessu þannig að markmið með niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar er að ná fram jöfnuði í landinu vegna hitunar húsnæðis þar sem þeim forréttindum að hafa aðgang að tiltölulega ódýrum jarðhita til húshitunar er ekki jafndreift. Það er göfugt markmið og skynsamlegt að jafna þennan kostnað en þó er mikilvægt að byggja kerfið þannig upp að tryggt verði að skynsamlega sé farið með orkuna og að hvatar verði fyrir orkusparnað. Einnig þarf kerfið að bjóða upp á möguleika til að styrkja nýjar lausnir varðandi húshitun, svo sem varmadælur og viðarkyndingu. Nokkra þessara möguleika er að finna í núverandi niðurgreiðslukerfi en þó má margt þar bæta.

Þegar núverandi kerfi var komið á laggirnar var greitt að fullu fyrir dreifingu raforku vegna húshitunar en nú er svo komið að þetta hlutfall er komið niður í 67%. Í núgildandi lögum og reglum eru ekki sett föst viðmið um hversu hátt hlutfall dreifikostnaðar skuli niðurgreiða og kerfið er flókið og algerlega háð fjárveitingavaldinu á hverjum tíma. Mikilvægt er að ná sem mestum jöfnuði í kerfinu og gera það einfaldara og skilvirkara. Hvernig sá jöfnuður verður síðan fjármagnaður er annað mál.

Starfshópur iðnaðarráðherra sem falið var að koma með tillögur til úrbóta varðandi niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar skilaði skýrslu sinni í desember síðastliðnum eins og fram hefur komið og voru þær tillögur kynntar í ríkisstjórn þann 16. desember 2011. Þar var ákveðið að skýrslan skyldi kynnt fyrir viðeigandi nefndum Alþingis áður en tekin yrði formleg afstaða til tillagnanna. Þann 5. janúar 2012 var skýrsla starfshópsins send til þeirra nefnda Alþingis sem málið varðar, þ.e. til hv. atvinnuveganefndar, hv. fjárlaganefndar og hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Í kjölfarið kynnti formaður starfshópsins tillögurnar í hv. atvinnuveganefnd þann 19. janúar síðastliðinn og í hv. fjárlaganefnd þann 14. febrúar síðastliðinn. Efni skýrslunnar er enn til umfjöllunar í þingnefndunum.

Ég hef sett af stað vinnu í ráðuneytinu við að fara nánar yfir tillögur starfshópsins og stefnt er að því að næsta haust liggi fyrir tillögur um breytt fyrirkomulag sem verða kynntar fyrir þinginu.

Hv. þingmaður spyr hvort gera megi ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp á þessu þingi til að hrinda í framkvæmd þessum tillögum eða öðrum um lækkun húshitunarkostnaðar og sé svo, hvenær sé stefnt að því að slíkar ráðstafanir taki gildi. Í samræmi við tillögur starfshópsins mun ég á næstu dögum mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar. Um er að ræða breytingu á 12. gr. þeirra laga en í henni er fjallað um fjárhæð og útreikning styrkja vegna stofnunar nýrra hitaveitna.

Í lokamálslið 1. mgr. 12. gr. kemur fram að frá styrkfjárhæðinni skuli dreginn annar beinn eða óbeinn fjárhagslegur stuðningur ríkisins, stofnana þess eða sjóða til viðkomandi hitaveitu eða byggingar hennar. Með frumvarpinu er lagt til að framangreindur lokamálsliður 1. mgr. 12. gr. laganna falli brott en sú tillaga er í samræmi við tillögur í skýrslu starfshópsins um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar sem skilað var til iðnaðarráðherra í desember síðastliðnum og í greinargerð með frumvarpinu er vísað til skýrslunnar. Í skýrslu starfshópsins eru þau rök færð fyrir brottfalli ákvæðisins að kostnaður við jarðhitaleit og boranir sé svipaður hvort sem leitað er að heitu vatni fyrir þúsund manna eða hundrað manna byggð og það sé verulega íþyngjandi fyrir smærri jarðhitaverkefni ef allur stofnstyrkur þurrkast út vegna þess opinbera fjármagns sem lagt er í jarðhitaleitina. Dæmi eru um að Alþingi veiti framlag til byggingar minni hitaveitna og ef það framlag kemur til frádráttar á þeim styrk sem kveðið er á um í 12. gr. laga nr. 78/2002 getur það leitt til þess að forsendur fyrir byggingu hitaveitu bresta.

Virðulegur forseti. Tillögur starfshópsins eru eins og áður sagði til umfjöllunar hjá þingnefndum og verið er að vinna að nánari greiningu þeirra í iðnaðarráðuneytinu. Að hluta til koma tillögurnar til framkvæmda ef frumvarpið sem ég talaði um síðast verður samþykkt á þessu þingi en að öðru leyti á því næsta, þ.e. ég geri ráð fyrir að iðnaðarráðherra mæli fyrir breytingunum á næsta þingi næsta haust.