Fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 15:28:04 (8693)


140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

fjárframlög til Landbúnaðarháskóla Íslands.

[15:28]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Við sameiningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Garðyrkjuskólans á Reykjum var stofnaður Landbúnaðarháskóli Íslands, fræðslu- og rannsóknastofnun landbúnaðarins. Heimanmundur Landbúnaðarháskóla Íslands við stofnun var samtals 115 millj. kr. halli frá árinu 2004 frá þeim stofnunum sem þá runnu saman og mynduðu skólann. Í viðræðum við stjórnvöld um framlag til skólans kom ávallt fram ásetningur um að vinna með skólanum, auka við fjárlagaramma hans og gera reksturinn þannig sjálfbæran. Um þetta voru meðal annars gefin fyrirheit áður en skólinn var fluttur milli ráðuneyta árið 2007. Af þessu varð hins vegar ekki fyrr en árið 2009 þegar hinn innri halli á rekstrinum var viðurkenndur að hluta við afgreiðslu fjárlaga og 70 milljónir fengust í aukinn fjárlagaramma. Sú hækkun hefur hins öll verið tekin til baka og gott betur með 130 millj. kr. niðurskurði á árunum 2010 og 2011. Reksturinn er því aftur orðinn ósjálfbær.

Nauðsynlegt er að setja fram skýrt ferli við vinnu að því að losna við þennan uppsafnaða halla. Ef það tekst ekki verður að leggja niður starfsstöðvar, hætta að taka inn nemendur og segja upp fólki. Ef framlög skólans hefðu fylgt meðaltalshækkun til íslenskra háskóla á árabilinu 2005–2011 hefði Landbúnaðarháskóli Íslands ekki þurft að glíma við neinn rekstrarvanda, að sögn forsvarsmanna hans.

Því langar mig til að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Hafa farið fram viðræður við Landbúnaðarháskóla Íslands um fjármál skólans? Er vilji fyrir því að fella niður eða afskrifa uppsafnaðan innri halla til að skólinn geti einbeitt sér að þeim tækifærum sem eru í íslenskum landbúnaði og til þess að mæta gríðarlegri eftirspurn eftir námi við skólann?