Staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna

Mánudaginn 30. apríl 2012, kl. 16:07:20 (8710)


140. löggjafarþing — 91. fundur,  30. apr. 2012.

staðan í úrlausn skuldavanda heimilanna.

[16:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar í upphafi þessarar umræðu að greina aðeins á milli greiðsluvanda og skuldavanda. Í greiðsluvanda duga ráðstöfunartekjur heimila ekki til að standa undir greiðslubyrði lána og lágmarksframfærslu en flest heimili í greiðsluvanda eru tekjulág. Þar er mikið um barnmargar fjölskyldur og leigjendur.

Í skuldavanda eru hins vegar húsnæðiseigendur með neikvætt eigið fé, en flest heimili í skuldavanda eru tekjuhá. Tíundi hver skuldsettur húseigandi er bæði í greiðslu- og skuldavanda. Þetta segir okkur að almennar aðgerðir í skuldamálum hjálpa ekki þeim í verstu stöðunni. Þær eru dýrar og ómarkvissar og þá vil ég sérstaklega taka fram að í nýrri skýrslu sinni mælir Seðlabankinn ekki með almennum aðgerðum á sviði skulda, (Gripið fram í: 15 þúsund.) heldur hitt.

Þess vegna vil ég segja, virðulegi forseti, að þeir sem tala fyrir almennum aðgerðum í skuldamálum gera það þvert á tillögur Seðlabankans. Við sjáum það líka ef við skoðum almennar afskriftir að stærstur hluti þeirra fer til þeirra sem hafa hæstu tekjurnar í samfélaginu. Gögnin sýna til dæmis að heimili með mikinn tekjuafgang eða yfir 200 þús. kr. í afgang eftir lágmarksframfærslu og greiðslu af húsnæðisskuldum, munu fá um 30% af almennum afskriftum, sem þýðir að almenn afskrift er greidd af öllum en rennur til þeirra sem mestar hafa tekjurnar. Ég held að það sé ómarkviss nýting fjármuna, virðulegi forseti.

Ég vil segja þetta: Við eigum að horfa á þá sem eru með lánsveð og að þeir verði gerðir jafnsettir öðrum með aðgang að 110%-leiðinni. Við eigum að líta til ráðstöfunartekna barnafjölskyldna og auka þær með hækkun barnabóta og hærri tekjuskerðingarmörkum. Við eigum líka að horfa á húsnæðisbætur sem geta komið í stað vaxta- og húsaleigubóta þannig að við styðjum við fjölskyldur í leiguhúsnæði. Þar er brýnasti vandinn og þar eigum við að forgangsraða þeim takmörkuðu fjármunum sem úr er að spila.