Heilbrigðisstarfsmenn

Miðvikudaginn 02. maí 2012, kl. 16:05:25 (8845)


140. löggjafarþing — 93. fundur,  2. maí 2012.

heilbrigðisstarfsmenn.

147. mál
[16:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga gengur út á það að veita þeim sem hafa lokið fjórða árs námi í lyfjafræði við Háskóla Íslands eða sambærilegu námi við annan háskóla tímabundið starfsleyfi til að gegna störfum lyfjafræðings. Í slíkum tilvikum skal lyfjafræðinemi starfa með og á ábyrgð lyfjafræðings. Ástæðan fyrir því að ég taldi brýnt að setja þetta inn í lögin er að það hafa komið tilvik í mínu kjördæmi þar sem langur tími leið áður en tókst að fá starfsmann í stöðu lyfjafræðings. Þar sem þetta verður greinilega ekki samþykkt vonast ég til þess að þetta verði tekið til skoðunar við endurskoðun á lyfjalögum. Ég tel sömu rök gilda hér og um læknanema, að það þurfi undanþáguákvæði á borð við þetta, ákvæði sem við nýtum aðeins þegar brýna nauðsyn ber til, en það er samt sem áður nauðsynlegt að hafa þetta til að tryggja þessa þjónustu.