Vinnustaðanámssjóður

Fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 21:49:35 (9692)


140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

vinnustaðanámssjóður.

765. mál
[21:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um vinnustaðanámssjóð, en í athugasemdum með frumvarpi til laga um framhaldsskóla, sem lagt var fram árið 2007 og varð að lögum 2008, er vakin athygli á þörf á sjálfstæðum sjóði til að tryggja vinnustaðanámi framgang. Þann 18. maí 2011 skipaði ég nefnd til að fylgja þessu verkefni eftir, en samkvæmt skipunarbréfi hennar var það hlutverk hennar að gera tillögur um efni í frumvarp til laga um sjóð sem hafi það hlutverk að efla vinnustaðanám og koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana sem annast kennslu starfsnámsnemenda. Nefndin var skipuð helstu hagsmunaaðilum er gætu tengst málefnum vinnustaðanámssjóðs. Árangur samstarfsins er það frumvarp sem ég mæli nú fyrir.

Frumvarpið felur í sér tímamót í starfsmenntun hér á landi. Starfsnám á framhaldsskólastigi fer yfirleitt fram bæði í skóla og á vinnustað. Stór þáttur námsins felst í að nemendur læri að beita mismunandi aðferðum og verklagi. Það nám fer annars vegar fram í verklegu sérnámi framhaldsskóla undir leiðsögn kennara og hins vegar í vinnustaðanámi eða starfsþjálfun á vinnustað. Til þessa hafa ekki verið nein tök á að mæta kostnaði fyrirtækja og stofnana vegna vinnustaðanáms og þar af leiðandi hefur hinu opinbera heldur ekki verið fært að gera viðhlítandi gæðakröfur í því efni. Með tilkomu vinnustaðanámssjóðs skapast tækifæri til að koma til móts við kostnað fyrirtækja og stofnana vegna námsins og viðurkenna þar með mikilsvert framlag þeirra til starfsmenntunar. Jafnframt skapast möguleikar á að gera auknar kröfur um gæði námsins, skipulag þess og framkvæmd.

Með frumvarpi þessu er stofnaður sjóður sem hefur það að markmiði að mæta þessum kostnaði og auka um leið möguleika nemenda á að ljúka starfsnámi sínu með viðunandi hætti, en það er þekkt að nemendur hafa oft ekki getað lokið starfsnámi sínu og einungis átt eftir að fara á samning, eins og það er kallað, og hafa þar af leiðandi jafnvel verið skráðir sem brottfallsnemendur þó að þeir hafi lokið öllum tilskildum einingum innan skólans.

Í frumvarpinu er kveðið á um starf og yfirstjórn vinnustaðanámssjóðs. Hlutverk sjóðsins er skilgreint og kveðið á um hvaða aðilar skuli tilnefna í stjórn hans, en þar er breiðfylking Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Félags íslenskra framhaldsskóla, Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Kennarasambands Íslands og fjármálaráðuneytis. Formaðurinn er skipaður án tilnefningar af menntamálaráðherra. Fjallað er um úthlutanir úr sjóðnum og tekjur hans og ákvæði er um mat og eftirlit með sjóðnum.

Eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu var veitt 150 millj. kr. framlag til sjóðsins til að mæta kostnaði vegna starfsnáms á vinnustað í fjárlögum 2012 og var þá ákveðið að framlagið væri til þriggja ára, 2012, 2013 og 2014, samtals 450 millj. kr. Ég lít svo á að þetta sé mikið framfaramál fyrir starfsnám á Íslandi sem við höfum oft rætt í sölum hv. Alþingis og vona svo sannarlega að um það geti skapast þverpólitísk samstaða.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.