140. löggjafarþing — 97. fundur,  10. maí 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

537. mál
[21:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Hér er til umfjöllunar tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um breytingu á II. viðauka. Hún fjallar um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun við EES-samninginn.

Það er rétt að taka það fram að hv. þm. Árni Páll Árnason var framsögumaður nefndarinnar með þessu máli en ég mæli hér engu að síður fyrir nefndaráliti sem ég á aðild að.

Með tilskipun sem hér er verið að fjalla um eru settar reglur sem ætlað er að tryggja frjálst flæði skotelda innan ESB og jafnframt að tryggja neytendavernd á þessu sviði. Með tilskipun 2008/43/EB er komið á fót samræmdu kerfi að því er varðar rekjanleika sprengiefna til almennra nota.

Innleiðing tilskipananna krefst lagabreytinga hér á landi en fyrirhugað er að innanríkisráðherra muni á yfirstandandi löggjafarþingi leggja fram frumvarp til breytinga á vopnalögum, nr. 16/1998, til innleiðingar á þessum tilskipunum. Hugsanlegar breytingar á högum þeirra sem hagsmuna eiga að gæta snúa fyrst og fremst að innflutningi sprengiefna og flugelda og mögulegri ábyrgð innflytjanda á vörunni ef hún uppfyllir ekki skilyrði tilskipananna. Þá þarf að gefa þeim aðilum sem flytja inn slík efni og vörur svigrúm til að finna birgja sem uppfylla skilyrði tilskipananna og tíma til að selja það efni og vörur sem þegar eru til og ekki uppfylla skilyrðin.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Helgi Hjörvar var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita Árni Þór Sigurðsson, Árni Páll Árnason, sem er framsögumaður, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Mörður Árnason, Ragnheiður E. Árnadóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.