Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 11:17:08 (9734)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef látið töluvert til mín taka í máli þessu. Sér í lagi beinist það að því að samkvæmt þessari þingsályktunartillögu er ekki gert ráð fyrir fjárhagslegri hagræðingu heldur þvert á móti. Það er mjög einkennilegt að ríkisstjórn fari fram í því að sameina ráðuneyti án þess að hafa það markmið að spara í ríkisrekstri.

Í umræðunum í gær upplýsti hv. þm. Jón Bjarnason það að sameining ráðuneyta nú væri að kröfu ESB, að ESB færi fram á að stækka hér stjórnsýslustofnanirnar til að til dæmis væri auðveldara að taka á móti IPA-styrkjunum svokölluðu. Við sjáum á hvaða leið ríkisstjórnin er, hún er á þráðbeinni leið inn í Evrópusambandið. Svo tala aðilar þessarar sömu ríkisstjórnar um að hér sé ekki aðlögunarferli í gangi.

Frú forseti. Ég segi nei.