Breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 11:22:01 (9738)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[11:22]
Horfa

Magnús M. Norðdahl (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þær breytingar á Stjórnarráðinu sem greidd eru atkvæði um eiga sér talsverðan aðdraganda og hafa verið vandlega undirbúnar eins og skýrsla sú sem málinu fylgdi við meðferð þess í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ber með sér. Meginrök gegn samþykkt þess lúta að pólitískum afleiðingum af samþykktinni, m.a. að boðleiðir geti verið styttri og að það sé ekki til bóta. Ég er ekki sammála því. Það er og hefur verið viðvarandi vandi íslenskrar stjórnsýslu að samtök um þrönga hagsmuni hafa um oft haft áhrif á ákvarðanir og stefnumótun í málaflokkum sem þau varða. Nefna má sem dæmi þau áhrif sem bankar og aðrar fjármálastofnanir höfðu á reglusetningu varðandi fjármálamarkaðinn á árunum fyrir hrun, en afleiðingar þess eru okkur öllum vel kunnar.

Því hefur einnig verið haldið fram að mikið vald muni safnast á hendur einstakra ráðherra. Vera kann að nokkuð sé til í því, en þá verður að hafa í huga að eftir setningu laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands, er aukin áhersla lögð á samræmd störf ráðherra þótt ríkisstjórninni hafi ekki verið breytt í fjölskipað stjórnvald.

Þetta tel ég (Forseti hringir.) til bóta en samhliða verður að efla sjálfstæðar eftirlitsstofnanir til að hafa hömlur á valdi ráðherra.

Ég segi já við þessari tillögu.