Lokafjárlög 2010

Föstudaginn 11. maí 2012, kl. 16:15:58 (9815)


140. löggjafarþing — 98. fundur,  11. maí 2012.

lokafjárlög 2010.

188. mál
[16:15]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsi mig reiðubúinn til samstarfs. Það hefur stundum verið sagt um okkur í stjórnarandstöðunni að við séum ekki reiðubúin til samstarfs en ég vil ítreka spurningu mína og hún er mjög skýr: Er formaður fjárlaganefndar reiðubúin að beita sér fyrir því að þetta frumvarp verði lagt fram af öllum flokkum í fjárlaganefnd, ekki af fjármálaráðherra?

Ég held að það mundi gera það að verkum að miklu breiðari sátt næðist um þetta verkefni. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að fjárlaganefnd hefur stigið mörg og góð skref, ferðin til Svíþjóðar var að mínu mati mjög góð, og þau skref sem hafa verið stigin eru í rétta átt en við eigum afar langt í land. Ég tel að þetta verkefni sé í rauninni til þess fallið að koma umræðunni um fjárreiðulögin og fjárlögin yfirleitt á miklu hærra plan en þá þarf líka að liggja fyrir að allir flokkar á Alþingi beri ábyrgð á framlagningu frumvarpsins. Þess vegna segi ég: Er hv. formaður fjárlaganefndar reiðubúin að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd leggi málið fram í heild sinni, taki málið til sín, noti þá vinnu sem fram hefur farið innan ráðuneytisins þannig að hún fari ekki til spillis, og klári málið í sumar?