Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 15. maí 2012, kl. 14:49:11 (9872)


140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[14:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum missirum átti ég orðastað við hæstv. innanríkisráðherra um Schengen-samstarfið. Þar varpaði ég fram nokkrum spurningum og var ráðherrann til svara, en lítið hefur orðið um framkvæmdir síðan þá.

Tuttugu og fimm Evrópuríki tilheyra innra landamæraeftirliti Schengen. Lögreglan hefur lýst áhyggjum sínum yfir því að meginþorri íslenskra lögreglumanna vill endurskoða Schengen-samstarfið hvað vegabréfaeftirlit varðar því að það fást hvorki peningar til tækjabúnaðar né þjálfunar lögreglumanna til þess að sinna vegabréfaeftirliti.

Ég er hér með tilvísanir í greinar eftir danska og norska lögreglumenn. Ég ætla að fá að vísa í viðtal við Kjeld Johan Abrahamsen sem er yfirmaður í lögreglunni í Vestfold í Noregi. Norska lögreglan hefur mjög miklar áhyggjur af þessum málum eins og við á Íslandi. Hann telur að eftir að landamæravarslan var felld niður hafi landamæri Noregs opnast upp á gátt fyrir mismunandi fólki eins og gefur að skilja. Norska lögreglan hefur líka miklar áhyggjur af því að hún fær í raun bara að taka eins konar stikkprufu. Það er mjög mikið um fölsk vegabréf.

Eins og fram kemur í viðtalinu við Kjeld Johan Abrahamsen er hægt að kaupa vegabréf fyrir nokkur hundruð evrur í Austur-Evrópu. Það er eitt af þeim vandamálum sem þeir glíma við og það eina sem hægt er að gera til að athuga hvort maður er með falskt vegabréf eða ekki er að taka fingraför af viðkomandi en það er bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Ef einhver liggur undir grun þarf að fara með viðkomandi í það ferli vegna þess að tæknin við fölsun vegabréfa er orðin svo mikil.

Eins og við vitum hafa Danir og Svíar líka mjög miklar áhyggjur af þessu. Danir lokuðu landamærum sínum að einhverju leyti á síðasta ári og báru því við að um tolleftirlit væri að ræða en ekki beint vegabréfaeftirlit og fengu þeir miklar ákúrur frá Evrópusambandinu fyrir það. Aðgerðin sneri að straumi fólks þar í gegn sem á ekki heima á Evrópska efnahagssvæðinu.

Þegar maður er einu sinni kominn inn á EES-svæðið getur maður ferðast þar að vild án þess að sýna vegabréf. Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Það hefur færst mjög í aukana að óæskilegt fólk ferðist innan landamæra EES sem gerst hefur brotlegt við lög og ekki nokkur leið er að ná til.

Danir, Svíar og Norðmenn hafa líka miklar áhyggjur af nýrri reglugerð sem verið er að innleiða í EB-rétt, það er stofnsetning, rekstur og notkun annarrar kynslóðar Schengen-upplýsingasamstarfsins. Verið er að útfæra það hjá Evrópusambandinu og væri fróðlegt að heyra frá ráðherranum hvort það er komið í umræðuna hér að við þurfum að taka þá reglugerð upp. Mér finnst akkúrat tími til þess núna endurskoða veru okkar í Schengen-samstarfinu, þ.e. þann hluta sem snýr að vegabréfaeftirlitinu.

Íslenskir lögreglumenn og tollverðir kalla beinlínis eftir því að við stígum það skref vegna þess að fordæmi er fyrir því innan ESB. Bretar hafa farið þá leið og eru með sitt eigið vegabréfaeftirlit, enda búa þeir á eyju eins og við.

Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. innanríkisráðherra:

Í ljósi þess að meginþorri lögreglumanna hér á landi vill endurskoða Schengen-samstarfið, telur hæstv. ráðherra ekki tímabært að taka upp sérstakt íslenskt landamæraeftirlit með vegabréfi og fingrafaraeftirliti?

Ef ráðherrann telur það ekki fýsilegt á þá að auka það fjármagn sem til þarf til að sporna við innflæði vafasamra einstaklinga og að færa lögreglunni þau vopn sem hún þarf til að sporna við innflutningi á þessu fólki?

Ef ekkert verður að gert, hvorki það að taka upp okkar eigið vegabréfaeftirlit né að veita frekari fjármagn til þessara málaflokka, hvernig sér hæstv. innanríkisráðherra þróunina í þessum málaflokki til næstu fjögurra ára?