Schengen-samstarfið

Þriðjudaginn 15. maí 2012, kl. 15:06:32 (9877)


140. löggjafarþing — 99. fundur,  15. maí 2012.

Schengen-samstarfið.

[15:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Þegar umræður fóru fram á Alþingi um þátttöku í Schengen-samstarfinu, sem mér sýnist að hafi verið á árinu 2000, voru sannarlega skiptar skoðanir um ágæti þess. Málið var auðvitað undirbúið af hálfu þáverandi utanríkisráðherra, formanns Framsóknarflokksins Halldórs Ásgrímssonar, og þáverandi dómsmálaráðherra úr Sjálfstæðisflokknum, Sólveigar Pétursdóttur. Eini stjórnmálaflokkurinn sem galt varhuga við Schengen-samstarfinu á þeim tíma var Vinstri hreyfingin – grænt framboð og færði fyrir því margvísleg rök. (Gripið fram í.) En um þetta voru skiptar skoðanir. Síðan hefur þetta mál þróast (Gripið fram í.) og það er ekki laust við að manni finnist eins og að sumu leyti hafi hlutverkin skolast eitthvað til í tímans rás (Gripið fram í.) en það er kannski ekki alveg óþekkt í þessum sal.

Ég vil leggja nokkur orð í belg hvað þetta snertir. Það er ljóst að þróunin frá þessum tíma hefur kannski ekki orðið nákvæmlega eins og spáð var en samt hefur þó ugglaust margt gengið eftir. Hæstv. innanríkisráðherra upplýsti að unnið væri að úttekt og ég vil þess vegna skjóta því inn í umræðuna að ég tel fullt tilefni til að hæstv. innanríkisráðherra flytji Alþingi einfaldlega skýrslu á grundvelli þeirrar vinnu, um samstarfið, um þróunina, um reynsluna, um kostina og um gallana, þannig að við getum fengið ítarlegri umræðu um þetta mál á þessum vettvangi.

Ég vil líka segja það að mér finnst mikilvægt að halda því til haga að vandinn í þessu samstarfi á ekki og má ekki snúa að heiðvirðu fólki sem vill fara ferða sinna á milli landa í lögmætum tilgangi og á lögmætum grunni. Vandinn er auðvitað hin skipulagða glæpastarfsemi og hún má ekki verða til þess að setja allar leikreglur, líka fyrir venjulega borgara. Það finnst mér mikilvægt. Hér er talað um fölsuð skilríki, leiðin til að taka á því er auðvitað aukin samvinna, hún er brýn.

Ég segi því að við megum ekki, þrátt fyrir sjónarmið um samstarfið sem slíkt, reisa hér nýtt járntjald (Forseti hringir.) eins og mér finnst stundum skína í gegn í umræðunni. Í þessu sambandi er (Forseti hringir.) gagnkvæmni mikilvæg sem og aukin samstaða og samstarf. (Gripið fram í.)