140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla nú, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gerði, að fagna því að þessi sérfræðinganefnd hafi verið skipuð og eigi að taka til starfa. Það held ég sé til bóta. Fram að þessu hef ég aðallega gagnrýnt ferlið í þessu máli en mun í ræðum í kvöld fara aðeins yfir tillögur sem hafa komið fram, breytingartillögur og annað.

Mig langar að spyrja hvort þingmaðurinn geti útlistað svolítið nánar umboð þessarar nefndar, hvað hún á að gera nákvæmlega, þannig að við séum ekki í vafa um það hvert hlutverk hennar er og umboð.

Mig langar líka að spyrja þingmanninn hvort búast megi við að meiri hlutinn, sem rekur þetta mál áfram, fallist á að bæta spurningum á þennan lista þannig að spurt verði fleiri spurninga en þeirra sem hér eru.

Nú er ljóst að skoðanir eru skiptar um þessar spurningar. Sjálfur hef ég ekki heyrt nein einustu rök fyrir því af hverju spurt er um þetta en ekki eitthvað annað eða af hverju eitt er ómögulegt en annað gott.

Mig langar því að spyrja þessara tveggja spurninga í fyrra andsvari, fá nánari lýsingu af umboði þessarar sérfræðinganefndar og hvort búast megi við því að fleiri spurningum verði bætt á þennan lista þannig að ferlið nýtist þá sem allra best, ef á annað borð verður farið í það, til þess að kanna hug þeirra sem taka þátt í þessu til ýmissa verkefna sem rétt er að spyrja um í tengslum við stjórnarskrá.