140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er kannski ekki rétti maðurinn til að svara nákvæmlega til um hver verður niðurstaðan varðandi þann hóp sérfræðinga sem hér hefur komið upp í umræðunni og veit í sjálfu sér ekki meira en hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar upplýsti hér fyrr í dag. Ég játa hins vegar að á annan kantinn er ég ánægður með að það hafi þó verið ákveðið að stíga það skref að fá hóp lögfræðinga til að fara yfir texta tillagna stjórnlagaráðs út frá lagatæknilegum forsendum, út frá samhengi, m.a. við alþjóðasamninga, og annað þess háttar. Ég held að það sé mjög gott svo langt sem það nær.

Ég ítreka hins vegar það sem ég sagði hér fyrr í dag að það veldur mér nokkrum vonbrigðum að verksviði þeirra sé markaður of þröngur rammi. Mér heyrist það á máli hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að sú verði raunin, að þeim verði markaður nokkuð þröngur rammi, vegna þess að þær athugasemdir sem hafa komið fram við tillögur stjórnlagaráðs eru, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson benti á, bæði efnislegar, þ.e. við ákvæðin efnislega, og eins það sem við getum kallað lagatæknilegar athugasemdir.

Hinar efnislegu athugasemdir geta í ákveðnum tilvikum snúið að þeirri stefnu sem mörkuð er með ákvæðunum en í mörgum tilvikum eru athugasemdirnar ekki síður á þá leið að ákvæðin séu óskýr og það sé óljóst við hvað er átt. Spurningin er sú, þegar skýra þarf merkingu ákvæða sem (Forseti hringir.) menn eru tilbúnir að skilja með mismunandi hætti: Hvenær hættir hin lagatæknilega yfirferð og hvenær byrjar hin efnislega breytingavinna?