140. löggjafarþing — 100. fundur,  16. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo undarlegt sem það er er það því miður staðreynd að stjórnarskráin okkar og stjórnarskrármálið hefur verið í sannkallaðri rússíbanareið undanfarin missiri. Ætlunin var með því fyrirkomulagi sem lagt var til í upphafi, að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings, að rjúfa það sem menn höfðu haft áhyggjur af að ekki tækist að gera þær breytingar á stjórnarskránni sem ríkjandi stjórnvöld töldu mikilvægt að yrði gert. Það er að vísu ekki rétt að ekki hafi verið gerðar breytingar á stjórnarskránni frá lýðveldistímanum. Ýmsar og í mörgum tilvikum býsna veigamiklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni.

Engu að síður var það uppleggið að núna þyrfti að breyta um það fyrirkomulag sem við höfðum viðhaft varðandi breytingar á stjórnarskránni allt lýðveldistímabilið. Þess vegna var hugsunin sú að skapa sátt um þetta mál með því að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings sem fengi það eitt verkefni að endurskoða stjórnarskrána okkar og leggja síðan fram tillögur í samræmi við það. Vitaskuld hlutu að gilda áfram þau ákvæði núgildandi stjórnarskrár hvernig yrði farið með málið og við þekkjum þau ákvæði. Hins vegar var þetta allt ofið mikilli ógæfu. Við munum að stjórnlagaþingskosningin var gerð ógild. Í ljós kom sem var auðvitað grátlegt í rauninni en um leið kannski grátbroslegt að kosningar til sjálfs stjórnlagaþingsins sem áttu að leggja grunn að breyttri stjórnarskrá voru gerðar ógildar. Menn stóðu með öðrum orðum ekki rétt að þeim kosningum. Svo getur menn greint á um hvort þetta voru veigamikil atriði eður ei, það er aukaatriði í málinu. Aðalatriðið er að þetta urðu ekki gildar kosningar og þá var gripið til þess ráðs að skipa sérstaka nefnd þeirra einstaklinga sem höfðu fengið flest atkvæði í atkvæðagreiðslu sem var ógild. Það er auðvitað mjög sérkennilegt.

Það var líka svo að í upphafi var talað mjög digurbarkalega, meðal annars af núverandi hæstv. forsætisráðherra, að eðlilegt væri að þegar tillögur stjórnlagaráðsins kæmu fram þá yrðu þær bornar nánast án umræðu upp gagnvart þjóðinni og þjóðin beðin um að segja álit sitt á þeim. Þetta breyttist síðan. Niðurstaðan varð sú að bera tillögur stjórnlagaráðsins ekki undir þjóðina, enda var auðvitað augljóst að það fyrirkomulag gat ekki gengið. Þar með var hæstv. forsætisráðherra í rauninni að sveigja af leið, breyta um skoðun. Það sem ég hygg að hafi gert útslagið í þessum efnum var ræða forseta Íslands 1. október sl., ræða sem flutt var úr þessum ræðustól og kallaði meðal annars á meiri háttar útgöngu einstakra hv. þingmanna úr þingsalnum sem töldu sér ekki lengur sætt undir ræðu forseta Íslands.

Það sem forseti Íslands var að segja okkur í ræðu sinni var að tillögur stjórnlagaráðsins fælu í sér veigamikla breytingu sem lytu sérstaklega að stöðu forsetans og forsetaembættisins. Túlkun forseta Íslands var sú að með tillögu stjórnlagaráðsins væri verið að leggja grunn í raun og veru að breyttri stjórnskipan vegna þess að verið væri að fela forseta Íslands vald sem hann hefði ekki haft áður. Nú er það þannig reyndar eins og við vitum að núverandi forseti hefur á margan hátt verið að breyta þessari stjórnskipan á sinn hátt með ákvörðunum sínum eins og við öll þekkjum. Það hefur sannarlega verið mjög umdeilt og ég hef miklar efasemdir og gagnrýni það raunar í mörgum býsna veigamiklum atriðum.

Það sem vakti athygli var að hér talaði í fyrsta lagi forseti Íslands um embætti sitt og hvernig hann teldi að stjórnlagaráðið væri í raun og veru að breyta stjórnskipuninni á þann veg að verið væri að auka forsetaræðið. Í raun væri verið að færa stjórnskipunina til þess sem væri miklu líkara því sem gerist í Bandaríkjunum og Frakklandi eftir atvikum þar sem forsetinn hefur vald og getur mætt þinginu með ýmsum hætti og skipað jafnvel ríkisstjórnir. Úr því að ég nefni það sérstaklega, að skipa ríkisstjórnir, þá er það eitt af því sem forseti Íslands nefndi í ræðu sinni að ef farið yrði að tillögum stjórnlagaráðs að breyttri stjórnarskrá þá hefði forseti Íslands mikið um það að segja með hvaða hætti ríkisstjórnir yrðu myndaðar og hvernig yrði að því staðið.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að forseti Íslands er fyrsti prófessorinn í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og hefur skrifað fræðigreinar um þessi mál. Það voru einmitt þær ábendingar forseta Íslands sem gerðu það að verkum að það kom mikið hik á þá sem vildu tala fyrir því að tillögur stjórnlagaráðsins yrðu lagðar óbreyttar fyrir þjóðina og þjóðin tæki afstöðu til þeirra. Forseti Íslands vakti athygli á því að tillögur stjórnlagaráðs mundu efla umsvif forsetans á vettvangi stjórnkerfisins og færa embættinu aukna ábyrgð í fyrsta lagi. Þá nefndi forsetinn það líka í ræðu sinni að nú þyrfti með þessum breytingum samþykki forsetans fyrir vali á dómurum og ríkissaksóknara og einungis tveir þriðju hlutar atkvæða Alþingis gætu breytt þeirri ákvörðun. Með öðrum orðum, þetta skipunarvald væri tekið frá viðeigandi ráðherra.

Í þriðja lagi nefndi hann það að hlutverk forseta við myndun ríkisstjórnar tæki miklum breytingum. Það væri forseti Íslands sem mundi hafa frumkvæði að viðræðum við einstaka þingmenn og þingflokka, ekki forustumenn stjórnmálaflokkanna eins og núna er og það væri síðan forsetans að gera tillögur til Alþingis um forsætisráðherra og þá væri hann ekki bundinn af því hvort viðkomandi væri þingmaður eður ei. Þetta eru auðvitað gríðarlega miklar breytingar.

Enn fremur sagði forseti Íslands að í stað þess forustuhlutverks sem formenn flokkanna hafi haft í áratugi við myndun ríkisstjórna mundi hin nýja skipun fela í sér beinar viðræður forsetans við þingmenn. Með öðrum orðum, þetta eru grundvallarbreytingar, þetta eru breytingar á stjórnskipan okkar í raun og veru eins og forseti Íslands túlkar þetta. Þessar ábendingar forsetans urðu þess valdandi að menn kusu að fara nýjar leiðir í því að reyna að gera breytingar á stjórnarskránni frá því sem áður hafði verið áformað. Og þá hófst sannkölluð rússíbanareið, ekki er hægt að kalla þessi mál neinum öðrum nöfnum. Rússíbanareiðin var í rauninni hafin með öllu því umstangi sem ég lýsti áðan þegar fyrst átti að kjósa stjórnlagaþing sem síðar breyttist í nefndarskipun Alþingis og kallað var stjórnlagaráð og síðan allt það sem við höfum séð gerast eftir það.

Forseti Íslands nefndi það líka úr þessum ræðustóli að mjög brýnt væri að Alþingi tæki efnislega afstöðu til tillagna stjórnlagaráðsins þannig að menn gerðu sér grein fyrir því núna þegar í hönd færu forsetakosningar með hvaða hætti stjórnskipunin væri, hvort verið væri að kjósa í embætti forseta Íslands á grundvelli þeirrar stjórnskipunar sem við höfum haft við lýði frá lýðveldisstofnuninni, þó að núverandi forseti hafi verið að gera á því ýmsar breytingar eins og ég nefndi, eða hvort ætlunin væri að kjósa í embættið einstakling sem fengi eftir næstu alþingiskosningar að breyttri stjórnarskrá stóraukin völd í hendur. Þetta er vitaskuld alveg rétt ábending hjá forseta Íslands. Auðvitað hefði það skipt máli fyrir okkur að vera komin lengra í hinni efnislegu umræðu um stjórnarskrána.

Við erum núna á þessari stundu nákvæmlega í þeirri sömu stöðu og við vorum fyrir nokkrum missirum. Hin efnislega umræða um stjórnarskrá Íslands er ekki hafin á vettvangi Alþingis. Þó er það þannig að Alþingi er stóri gerandinn í þessum efnum og það er ekki fyrr en Alþingi hefur veitt samþykki sitt að málið fer sína leið til þjóðarinnar.

Við erum komin í þá undarlegu stöðu að núna eftir nokkrar vikur verður kosinn nýr forseti í mikilli óvissu um það hvert hið stjórnskipulega vald þess forseta verður. Forseti Íslands segir, með leyfi virðulegs forseta, í ræðu sinni:

„Svar stjórnlagaráðsins er skýrt. Tillögur þess fela í sér mun valdameiri forseta. Slíkt eru tvímælalaust veruleg tíðindi en vandi Alþingis í meðferð málsins mun þó mótast að nokkru af því að forsetakosningar eiga að fara fram á sumri komanda. Tími til ákvarðana er þess vegna takmarkaður og brýnt er að afstaða Alþingis til þessara tillagna liggi fyrir í tæka tíð. Annars bæri Alþingi ábyrgð á því að þjóðin vissi ekki hver staða forsetans yrði í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu. Forsetakosningarnar yrðu þá algjör óvissuferð.“

Þá vitum við það. Við erum komin af stað í óvissuferðina. Það er óvissuferð fram undan við forsetakjörið vegna þess að Alþingi hefur ekki svarað því sem forsetinn var í raun og veru að skora á okkur að við gerðum, að við svöruðum þessum spurningum efnislega en dræpum málum ekki á dreif með þeim hætti sem verið er að gera núna með málatilbúnaði meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Það sem hér er verið að gera er að undir formerkjum Alþingis er verið að efna til skoðanakönnunar. Við sáum líka þá miklu sorgarsögu sem þessu var öllu samfara. Við munum það að á sínum tíma var lögð fram tillaga til þingsályktunar þar sem gert var ráð fyrir tilteknum spurningum. Þær voru fimm í upphafi. Þær voru harðlega gagnrýndar, ekki bara innan vébanda Alþingis heldur alls staðar þar sem kunnáttumenn á þessu sviði komu saman. Það er mjög undarlegt þegar við erum að véla um sjálfa stjórnarskrána, grunnlög lýðveldisins, að það skuli hafa verið gert með því, greinilega án þess að leita eftir nokkurri fræðilegri eða sérfræðilegri ráðgjöf, að hent var fram í formi þingsályktunartillögu spurningum sem stóðust hvergi mál. Ég lýsti því í ræðu sem ég flutti á sínum tíma um þetta mál að í rauninni hefðu þeir hv. þingmenn sem stóðu að því máli með þeirri tillögu fellt sjálfan sig á prófi sem hefði verið lagt fyrir fyrsta árs nemendur í menntaskóla í aðferðafræði, hvorki meira né minna, þannig var þetta. Enda sjáum við það á þeim breytingartillögum sem liggja núna fyrir frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að það er í rauninni viðurkennt að þær spurningar sem voru lagðar fram voru fúsk og stóðust ekki að neinu leyti mál.

Þrátt fyrir að búið sé að reyna að lappa aðeins upp á þessar spurningar stöndum við enn frammi fyrir því að gríðarlega margt er óljóst í þessum efnum eins og hér hefur verið rakið af öðrum hv. þingmönnum sem hafa farið yfir þessi mál. Ef við víkjum okkur beint að fyrstu spurningunni, þá segir þar með leyfi virðulegs forseta:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.“

Hvað þýðir „lagðar til grundvallar“? Hvað þýðir það? Þetta er algerlega merkingarlaust hugtak. Við getum reynt að freista þess að reyna að skilgreina þetta en ég ætla að fullyrða það að skilningur þingmanna á hugtakinu „lagðar til grundvallar“ er mjög óljós fyrir utan það að við hljótum að gera ráð fyrir að þessi mál séu skýrð einhvern veginn betur en gert er hér. Það er mikið áhyggjuefni þegar þrátt fyrir tilraun tvö séum við enn í þeirri stöðu að spurningarnar eru svona óljósar eins og ég nefndi.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson fór rækilega yfir það í ræðu sinni áðan og ítrekaði það í andsvörum við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur að ákvæðið um þjóðkirkjuna er líka mjög illskiljanlegt. Það kallar fram alls konar túlkunaratriði sem eiga ekki að eiga sér stað þegar við erum að ræða um svona mikilvæg mál eins og stjórnarskráin að sjálfsögðu er. Við höfum leyfi til þess — eða höfum ekki leyfi til þess, við gerum auðvitað kröfu til okkar um að reyna að vanda okkur við alla lagasetningu. En við hljótum að gera til okkar alveg sérstakar kröfur þegar við erum að ræða um hvernig við ætlum að leggja grunn að nýrri stjórnarskrá Íslands. Það er ekki þannig að við séum að gera þetta á hverjum degi. Við höfum að vísu farið þá leið sem að mínu mati er miklu skynsamlegri að taka fyrir afmarkaða kafla, freista þess að gera á þeim breytingar ef efni hafa staðið til í stað þess að fara þá leið sem hérna er verið að feta.

Ég ætla að nefna eina spurninguna enn sem er að mínu mati algerlega ófullburða og það er spurningin: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“

Þetta var mjög harðlega gagnrýnt við fyrri umræðu málsins þegar menn bentu á að þarna væri hugtakið „í meira mæli“ ákaflega óljóst. Ég er til dæmis þeirrar skoðunar að stíga eigi einhver skref í þessa veru. Ég vil hins vegar stíga mjög stutt skref, ég er þeirrar skoðunar og get fært fyrir því rök, en aðrir kunna að hafa allt aðra skoðun. En í báðum tilvikum mundi maður væntanlega segja já við þessu, að maður vildi gera einhverjar breytingar, en í raun og veru verður svarið við þessari spurningu gersamlega merkingarlaust.

Síðan ætla ég að nema aðeins staðar við 6. spurninguna: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“

Nú þekkjum við vel þessa umræðu. Hún er gamalkunnug. Þessi tillaga hefur verið uppi oft og tíðum þegar menn hafa verið að ræða stjórnarskrána og mögulegar breytingar á henni. En samfara þessu hafa líka verið uppi önnur sjónarmið. Í fyrsta lagi það sjónarmið að það eigi að hafa þetta óbreytt, að málskotsréttur forseta Íslands eigi að duga sem sá öryggisventill sem menn vilja hafa og sá möguleiki að vísa málum til þjóðarinnar. Mjög var talað fyrir því á árinu 2004 í tengslum við málskot forseta Íslands á þeim tíma varðandi fjölmiðlalöggjöfina. Þá töluðu margir mjög harkalega fyrir því að það þyrfti að hafa þennan málskotsrétt forseta Íslands. Ég tek líka eftir því að þeir frambjóðendur í forsetakosningunum núna sem hafa tjáð sig um þessi mál, a.m.k. þeir sem ég hef hlustað á eða heyrt í, hafa talað fyrir því að mjög mikilvægt sé að þessi málskotsréttur sé til staðar hjá forseta Íslands. Þá vaknar spurningin: Felur 6. spurningin það í sér að málskotsrétturinn eigi að vera hjá þjóðinni en ekki forsetaembættinu? Er spurningin til þess fallin að leiða fram það sjónarmið að eðlilegt sé að þjóðin hafi þennan málskotsrétt en forseti Íslands ekki? Þetta var mjög mikið deiluefni á árinu 2007 þegar menn voru þá að freista þess að gera breytingar á stjórnarskrá Íslands. Þær breytingar voru komnar býsna langt. Prýðilegur friður var um mjög marga hluti þar eins og til dæmis um auðlindaákvæðið. En þá gerðist það hins vegar í þeirri umræðu vegna nálægðarinnar við átökin sem voru um fjölmiðlalöggjöfina að einn tiltekinn stjórnmálaflokkur, ef ekki tveir, settu bara hælana í jörðina og sögðu: Það verða engar breytingar gerðar á stjórnarskránni ef menn ætla að hrófla við málskotsrétti forseta Íslands. Það var ekki flóknara en það. Þess vegna stoppaði það mál. Þess vegna auðnaðist okkur ekki því miður að gera þær breytingar, til dæmis á auðlindaákvæðinu og ýmsum öðrum ákvæðum sem lutu meðal annars að málskotsréttinum sem ég tel að hefði verið fullt tilefni til að gera.

Í þriðja lagi hefur líka í þessu samhengi oft verið rætt um það að eðlilegt væri að minni hluti Alþingis hefði möguleika á því að vísa málum svona áfram. Eftir því sem ég best veit eru slík ákvæði inni í dönsku stjórnarskránni. Ég hafði við fyrstu athugun á þessu máli miklar efasemdir um það að minni hlutinn gæti varpað málum inn í þjóðaratkvæðagreiðslu, óttaðist það að minni hlutinn færi að misnota það vald sitt og væri að taka á vissan hátt löggjafarvald sem meiri hlutinn hlyti auðvitað að hafa í lok dagsins í öllum tilvikum. Hins vegar er reynslan sú í Danmörku að menn beita þessu tæki mjög varlega enda er hugsunin á bak við það ekki sú að í hverju einasta tilviki sé öllum málum þá vísað til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu heldur sé það gert við sérstök tilefni, þegar sérstaklega stendur á getum við sagt. En engu að síður er þetta hlutur sem menn hafa verið að ræða. Þess vegna vaknar alveg óhjákvæmilega sú spurning: Er það þannig að um leið og menn taka afstöðu til þessarar spurningar, eru þeir þá að taka afstöðu gegn hinum hugmyndunum sem ég var að nefna?

Virðulegi forseti. Því miður hefur tími minn hlaupið frá mér. Ég hefði gjarnan líka viljað velta fyrir mér valinu á þessum spurningum sem vekja auðvitað athygli. Búið er að bæta við nokkrum spurningum frá upphaflegu þingskjali en eftir sem áður sér maður að ekki er verið að spyrja spurninga sem skipta mjög miklu máli, t.d. um stöðu forsetaembættisins, sem ég hefði talið mjög fróðlegt að fá afstöðu þjóðarinnar til. Ekki er verið að spyrja spurninga um valdaframsal vegna alþjóðasamninga sem hv. þingmenn Ólöf Nordal og Birgir Ármannsson gera tillögu um. (Forseti hringir.) Og það væri mjög fróðlegt að heyra hvernig standi á því að til dæmis svona spurningar voru ekki lagðar fram í þessu þingskjali til að leggja fyrir þjóðina.