140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar góðu spurningar. Varðandi orðalagið „jafnrétti til búsetu“ á sú tillaga rætur að rekja til 6. gr. tillagna stjórnlagaráðs þar sem talað er um jafnræði reyndar. Þar er talað um jafnræði til alls konar hluta, þar á meðal búsetu. Það sem þarf hins vegar að skilgreina er hvað átt er við með jafnræði til búsetu. Það sem við leggjum hér til er að einfaldlega verði spurt, ef fólk er þeirrar skoðunar að það eigi að vera jafnræði eða jafnrétti til búsetu, hvort þeir sem taka þátt í þessari könnun séu sammála því að svo eigi að vera. Orðalagið rímar alveg við aðrar spurningar sem á að leggja fyrir þjóðina.

Það sem vakir fyrir flutningsmönnum er að menn velti orðinu jafnrétti fyrir sér í þessu samhengi, reyni að sjá fyrir sér til dæmis jafnan búsetukostnað, jafnan rétt til að fá ódýrt rafmagn og ódýra hitaveitu. Þegar ég ákveð að búa á Langanesi eða í Hafnarfirði eiga almenn mannréttindi, sem má orða þannig, sem eru svo sem líka talin upp í þessum tillögum, ekki að vera til trafala. Jöfn gæði eiga að vera til staðar. Það getur verið að þetta sé óframkvæmanlegt en það væri gaman að vita hug þjóðarinnar til þess, þ.e. hug þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni.

Varðandi tillöguna til jafnra samgangna er mjög vitlaust gefið í samgöngum á Íslandi. Við þurfum ekki annað en að fara vestur á firði til að sjá að í tugi ára hafa þeir sem búa á suðurfjörðum Vestfjarða varla búið við vegasamgöngur (Forseti hringir.) einu sinni.