140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta svar. Þingmaðurinn vill meina að það plagg sem liggur nú fyrir þinginu sé útþynning á stjórnarskránni. Ég tek undir það.

Við skulum ekki gleyma því, eins og ég fór yfir áðan, að stjórnskipunarvaldið er mjög sterkt og afgerandi hér á landi og stjórnarskrá á ekki að breyta bara til að breyta henni eða út af því að vinstri flokkarnir ákváðu að hér hrundi allt vegna stjórnarskrárinnar og því þurfi að skrifa nýja stjórnarskrá. Maður hefur aldrei heyrt annað eins í nokkru ríki og við teljum okkur vera frekar lýðræðislegt land.

Ef skýrsla stjórnlagaráðs fer óbreytt í gegn, eins og sumir vilja, þá leiðir það að sjálfsögðu til réttaráhrifa því að um leið og eitthvert atriði er komið í stjórnarskrá er ríkið bundið af því að uppfylla þær skyldur. Það var því mjög skemmtilegt að heyra hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson fara yfir atriði sem eru á mörkum þess að eiga heima í stjórnarskrá, eins og ákvæðið um dýravernd og annað. Hver á að leita réttar dýranna fyrir Hæstarétti?

Þetta er því miður vanhugsað. Það er eins og þetta hafi ekki verið hugsað til enda. Verði þessar tillögur að nýrri stjórnarskrá hafa þær gríðarleg áhrif í samfélaginu vegna þess að megintónninn í þeim er eiginlega að gera allt fyrir alla og allir eigi að fá svakalegan rétt o.s.frv.

Þetta er mjög skrýtið en ég undrast mest að mannréttindakaflinn skyldi hafa verið endurskrifaður vegna þess að það er komin dómaframkvæmd á hann síðan hann var settur í stjórnarskrána 1995 og er því nokkurn veginn orðið skýrt hvaða réttindi við höfum sem einstaklingar í (Forseti hringir.) þessu þjóðríki.