140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þá held ég að meiri áhugi sé hjá þjóðinni að taka á skuldavanda heimilanna en að breyta stjórnarskránni. Við gætum látið fara fram atkvæðagreiðslu um afnám verðtryggingar til að mynda. Ég held að það yrði betri kosningaþátttaka í því, eða um áframhald ESB-viðræðna, svo dæmi séu tekin. Ég skynja því ekki þennan brennandi áhuga. Vissulega er fólk sem hefur áhuga á að breyta stjórnarskránni, aðrir eru hlutlausir gagnvart því og telja það kannski ekki brýnasta verkefnið. En maður finnur ekki brennandi áhuga hjá þjóðinni á því að þetta sé mikilvægasta málið núna. Ég held, með fullri virðingu og án þess að maður leyfi sér að vera með einhverjar fullyrðingar í þeim efnum, að stærsti hluti þjóðarinnar telji að önnur mál séu stærri og mikilvægari.

Eins og hv. þingmaður benti á að það hafi verið forustumaður stjórnarliðsins sem hafi talað um hugmyndafræði, það var einmitt hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sem talaði um hugmyndafræði í þessu samhengi og þarf kannski að endurtaka það sem kom fram hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þegar hann gerði grein fyrir tillögum sínum að það skyti svolítið skökku við að það fólk sem talar um að fara eigi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þessar tillögur að stjórnarskrá áður en stjórnarskráin er tilbúin er sama fólkið og segir að ekki sé hægt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB fyrr en samningur liggi fyrir. Og eins að ekki hefði verið væri hægt að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Þetta skýtur allt svolítið skökku við og þess vegna er hægt að tala um þetta sem einhvers konar spurningavagn (Forseti hringir.) og er ekki óeðlilegt að ræða fleiri spurningar í því sambandi.