140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Þetta vandamál hefur komið upp í umræðunni vegna þess að þetta verður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Ef munurinn verður lítill, hvernig verður þá farið með úrslitin? Við vitum að ríkjandi meiri hluti í þinginu, ásamt þingmönnum Hreyfingarinnar, vill sjá þetta mál fara áfram þannig að ef það verður fellt með örlitlum mun getur ríkisstjórnin réttlætt það fyrir sér að halda samt áfram með málið vegna þess þjóðaratkvæðagreiðslan hefði bara verið ráðgefandi.

Ég minni t.d. á tvær atkvæðagreiðslur sem voru ráðgefandi. Það var álverskosningin í Hafnarfirði. Í þeirri atkvæðagreiðslu hjá bæjarbúum var lítill munur. Nei-ið varð ofan á, þeir vildu ekki stækkun en samt standa Hafnfirðingar frammi fyrir því að álverið stækkaði. Svo er það náttúrlega flugvallarkosningin þar sem við Reykvíkingar gengum að kjörborðinu og spurningin var: Vilt þú Reykjavíkurflugvöll burt úr Vatnsmýrinni 2016? — og lítill meiri hluti sagði já, en flugvöllurinn er ekkert að fara. Þetta eru tvö skýr dæmi um það hvernig meiri hluti hjá sveitarfélögum og ríki geta farið með úrslit ráðgefandi atkvæðagreiðslu, þ.e. eins og þeim sýnist. Það er þetta sem við tökumst nú á um og þess vegna er maður hræddur um að meiri hlutinn komi til með að beita valdi sínu þó að nei-ið yrði ofan á og fyrsta spurningin um hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar yrði felld. Ekki fór ríkisstjórnin að bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, svo mikið er víst. Það var varla þornað blekið á þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, (Forseti hringir.) var kominn með nýjan samning inn í þingið. Maður treystir náttúrlega ekki núverandi stjórnvöldum.