140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Reglurnar eru þannig að maður þarf að halda mjög stuttar ræður og þá er það gert. Ég hef rætt nokkra hluti í ræðunum mínum og ég fór síðast sérstaklega yfir fyrstu spurninguna í þessari tillögu sem hljómar svona:

„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Tveir svarvalmöguleikar eru:

Já, ég vil að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Nei, ég vil ekki að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá

Bara svo menn hafi það á hreinu eru tillögur stjórnlagaráðs 115 greinar og enginn í meiri hlutanum hefur reynt að útskýra hvernig eigi að fara með niðurstöðuna, sama hver hún verður, einfaldlega vegna þess að það er mjög erfitt að átta sig á því og lesa út úr niðurstöðunni með hverjum þessara 115 greina fólk er að greiða atkvæði. Það er fullkomlega útilokað fyrir fólk að átta sig á því ef það er til dæmis samþykkt 30 af þessum greinum en ósammála 20 og hefur mjög sterkar skoðanir, jákvæðar á 30, neikvæðar á 20 eða eitthvað slíkt, hvort það á að segja já eða nei.

En nóg um það, ég ætla að fara í fleiri spurningar. Önnur spurningin er svona:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Þar er já eða nei valkostur.

Spurningin er: Hvað er átt við með náttúruauðlindum? Er það hafið, fiskurinn, jarðvarmi, fallvötnin, fallegir staðir sem má nýta í þágu ferðamanna? Og hvað er þjóðareign? Skúli Magnússon, dósent við lagadeild HÍ, skrifaði til dæmis í Fréttablaðið eftirfarandi sem ég ætla að fá að lesa, með leyfi forseta:

„Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að „þjóðareign“ vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi — hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms. Þvert á móti vísar hugtakið til þeirrar hugmyndar að náttúruauðlindir Íslands séu gæði sem þjóðin öll hefur ríka hagsmuni af (ekki ósvipað því að við, þjóðin, „eigum“ tungu, bókmenntir, landslið í handbolta, o.s.frv.). Af þessu leiðir að auðlindir í þjóðareign geta lagalega verið háðar eignarrétti einkaaðila, eign ríkisins eða verið eigendalausar.“

Hið sama á við um fyrstu spurninguna. Með öðrum orðum er ekki búið að skilgreina og það er ekki skilgreint hvað þjóðareign er. Hvernig á þá fólk að greiða atkvæði um það hvað sé þjóðareign ef það er ekki skilgreint hvað þjóðareign er? (Gripið fram í: Vantar stöðumat?)

Virðulegi forseti. Þarna sá ég í stjórnarliða og ég bíð spenntur eftir svörum frá honum um það hvað þjóðareign er og einnig væri gott að fá leiðbeiningar frá honum um það hvernig fólk ætti að kjósa í fyrstu spurningunni. Þá er það ekki hvaða skoðun það eigi að hafa heldur hvernig það eigi að fara með atkvæði sitt eftir því hvaða afstöðu það hefur til málefnisins.

Síðan er sömuleiðis mjög óljóst hvað til dæmis kjósandi á að gera ef hann hefur með mismunandi afstöðu til fiskveiða eða jarðvarma og svo er það að sjálfsögðu deginum ljósara að fólk hefur mjög mismunandi afstöðu til þjóðareignar. Ég er búinn að fara fram á það að þeir fræðimenn sem eiga að hafa komið að þessum spurningum stígi fram og útskýri þetta og/eða hv. stjórnarliðar því að við verðum að fá botn í þetta. Ég er búinn að spyrjast fyrir um þetta í nokkrum ræðum. Ég vil fá að vita hvernig á að fara með þessar spurningar, hvernig menn ætla að fara með niðurstöðuna í þessum kosningum. Það er fullkomlega óljóst vegna þess að spurningarnar eru svo óskýrar. Það er það fyrsta sem menn læra ef þeir ætla að búa til skoðanakannanir að það er mjög mikilvægt að spurningarnar séu skýrar og að allir skilji þær eins.

Dæmi um skýra spurningu er sú fimmta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Þetta er skýrt. Aðrar spurningar eru óskýrar. Það þýðir að niðurstaðan verður marklaus sama hvernig hún verður.