140. löggjafarþing — 104. fundur,  21. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:39]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður vék að, umræðan um stjórnarskrárbreytingar hefur byggst á því af hálfu ríkisstjórnarinnar og forsvarsmanna hennar að blekkja fólk í tíma og ótíma, opna fyrir einhverjar væntingar, einhverja hluti sem er ekki hægt að festa í kjöl, hvorki með fírtommu né sextommu, það er ekki hægt, vegna þess að stjórnarskrá er markmið, viðmiðun, hugsjón og ákveðin stefna í anda þjóðar eins og hún skilur væntingar inn í framtíðina sem eru aldrei öruggar en geta verið bjartar og góðar.

Stjórnarskrá má ekki vera smíðuð til þess að vera einhver túlípani á borði ríkisstjórnar. Stjórnarskrá er miklu alvarlegra mál og mikilvægara en að menn eins og hæstv. ríkisstjórn vilji tjalda henni sem blómaskreytingu og jafnvel eru svo metnaðarlausir að þeir vilja tjalda henni sem þurrskreytingu. Það er ekki spegilmynd af lífi og markmiði hugsunar fólks í landinu sem vill ekki að stjórnarskrá sé eins og boðskort í eitthvert óvissupartí. Þess vegna skiptir svo miklu máli að þetta sé faglega unnið, skynsamlega, með brjóstviti, góðum vilja og verkviti. Það hefur ekki verið gert. Það gengur ekki að nudda í gegn (Forseti hringir.) stjórnarskrá eins lands. Ef það er ekki tiltölulega mikil sátt um hana þýðir það bara endalausan slag, ósætti, tortryggni, öfund og vandræði.