Heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði

Föstudaginn 25. maí 2012, kl. 18:34:12 (11358)


140. löggjafarþing — 107. fundur,  25. maí 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[18:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég náði kannski ekki alveg endanum á spurningunni en bið þá hv. þm. Ásbjörn Óttarsson velvirðingar á því og þakka fyrirspurnina.

Ég held að það sé ljóst að ýmislegt hefur gengið á og forsendur hafa breyst varðandi margt, sérstaklega eftir hrunið. Ég hef hins vegar verið eindreginn talsmaður þess að við mundum reyna að fara af stað með framkvæmdir. Það sem gerðist meðan Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var hér þá mátti ríkið ekki fara í neinar framkvæmdir eins og ég skildi það. Þess vegna fór menn þessa leið, sérstaklega með tvöföldun Suðurlandsvegar og Vaðlaheiðargöngum var svo dembt þar inn í.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og við erum sammála um það, að sunnanmenn hafa ekki verið reiðubúnir til að greiða fyrir akstur yfir Hellisheiði á meðan heimamenn á Norðurlandi hafa verið reiðubúnir til að greiða fyrir slíkt. Ég vísaði til þess í ræðu minni að ég teldi að það væri kannski munurinn, en ef þingmaðurinn er að spyrja um hvort ég telji eðlilegt að fara þá leið sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á áðan með 2 milljarða framlagið þá er ég ósammála því. Þá erum við að segja að þar með muni ríkið taka á sig 2 milljarða og ég tel ekki rétt að standa að því með þeim hætti.