140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[16:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Það er ágætt í ljósi þess sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir fór yfir að mikil umsóknarhrina var að Evrópusambandinu kringum 1990–1994 sem leiddi til þess að Norðurlöndin gengu inn í Evrópusambandið að Noregi undanskildum sem felldi Evrópusambandsumsókn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það sama ár felldi Sviss EES-samninginn og dró þar með umsókn að Evrópusambandinu til baka og hefur ekki reynt á það síðar í Sviss. Eftir hræðilega útkomu Evrópusambandsins í Noregi eftir að þeir voru búnir að dæla miklu fé í auglýsingaherferðir sem samtökin Nei til EU hafa staðfest var farið í það að breyta vinnuferli Evrópusambandsins þannig að það þyrfti að styrkja stoðirnar og þá var þetta aðlögunarferli tekið upp.

Ég spurði hæstv. utanríkisráðherra að því í morgun, vegna þess að Malta dró umsókn sína til baka á árunum 1996 til ársins 2000, hvort það hefðu verið einhverjar afleiðingar fyrir Maltverja á þeim tíma eða hvort þeir hefðu þurft að greiða eitthvað til baka af þeim styrkjum sem þeir hefðu þá þegar þegið en hæstv. utanríkisráðherra kaus að svara því ekki, og svo vitum við það að Malta gekk inn árið 2000. Ekki hefur reynt á það vegna þess að ekki er lagabókstafur fyrir því í lögum Evrópusambandsins að umsóknarríki þurfi að greiða styrkina til baka. Í ljósi makríldeilunnar, Icesave-samningsins og fleiri þvingunarúrræða sem Evrópusambandið hefur beitt okkur Íslendinga, þrátt fyrir orð hæstv. utanríkisráðherra að við þurfum ekki að greiða styrkina til baka, segi þjóðin nei í þjóðaratkvæðagreiðslu út frá lögfræðilegum sjónarmiðum þegar ekki eru ákvæði í lögum um tiltekið efni, er þá ekki hægt að gagnálykta og segja sem svo að Evrópusambandið geti sótt rétt sinn vegna þess að ekki eru ákvæði um þetta í lögum?