140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man ekki nákvæmlega hvernig tekið var til orða í nefndaráliti meiri hlutans í utanríkismálanefnd sumarið 2009 en áreiðanlega er það rétt hjá hv. þingmanni að ekki sé vikið að IPA-styrkjunum berum orðum. Ég hygg þó að hv. þingmaður muni eins og ég að þegar við vorum í umræðum um aðildarumsóknina sumarið 2009 var verið að veifa alls konar gulrótum hérna, möguleikum á styrkveitingum og einhverju slíku. Ég hygg þó að það hafi kannski fyrst og fremst verið nefnt í samhengi við þýðingarvinnuna sem tengist aðildar- eða aðlögunarferlinu, að það væri möguleiki að fá styrkveitingar frá Evrópusambandinu til að standa straum af þýðingarvinnunni. Það rifjast helst upp þegar hv. þingmaður spyr um þetta efni.

Það var vissulega sagt og hæstv. utanríkisráðherra, ef ég man rétt, sagði það oftar en einu sinni að menn mættu ekki gera mikið úr þeim kostnaði sem fylgdi umsókninni um Evrópusambandsaðild vegna þess að það fengjust líka peningar á móti, menn ættu ekki að gera lítið úr því. Hitt er annað að þetta mál með IPA-styrkina er trúlega ekki nefnt berum orðum. Ég hugsa að umræðan hafi ekki verið á því stigi sumarið 2009 að menn hafi gert sér almennilega grein fyrir því hvernig þessi mál mundu þróast, hvorki varðandi IPA-styrkina sem við ræðum í dag né aðstoðina sem kölluð er TAIEX og felst í heimsóknum ráðgjafa hingað og boði fyrir ráðgjafa til að fara utan og samstarfi af því taginu sem felur ekki í sér beinar fjárveitingar heldur það sem kallað er aðstoð á sérfræðilegum grundvelli.