140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[17:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað hárrétt athugasemd að málið snýst um margt. Það snýst kannski um ákveðin formsatriði eins og ég kom að í ræðu minni, þ.e. hér er verið að koma með hlutina inn í vitlausri röð, verið að stilla þingmönnum upp við vegg með því að afgreiða fyrst fjárlögin og síðan þau frumvörp sem eru forsenda þess að til þessara greiðslna, bæði á tekju- og gjaldahlið fjárlaga, geti komið.

Þetta mál hefur líka skírskotun til siðferðis eins og hv. þingmaður nefnir. Við getum deilt um það og haft mismunandi sjónarmið á það hversu smekklegt það er að þegar tveir aðilar sem eiga í samningum eins og okkur er sagt að eigi við um Ísland og Evrópusambandið, bjóði annar fram styrki. Þessu er alltaf stillt þannig upp að þarna séu tveir jafnsettir aðilar sem setjast niður við samningaborð og semja á jafnréttisgrundvelli. Við vitum auðvitað að það er ekki þannig en þannig er orðræðan af hálfu sumra talsmanna ríkisstjórnarinnar. Ef það væri svo að tveir jafnstæðir, jafnsettir aðilar sætu við samningaborð væri svolítið sérkennilegt ef annar samningsaðilinn væri að — ja, við getum orðað það þannig — bera fé á hinn eða veita honum styrki meðan á samningaviðræðunum stendur. Það er undarlegur blær á því.

Ég verð að segja þó að ég hef ákveðna samúð með sjónarmiðum þeirra hv. þingmanna og ráðherra sem einlæglega trúa því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég get ímyndað mér að fyrir þeim sé hinn siðferðislegi vandi í því að taka á móti þessum styrkjum ekkert sérstaklega mikill. Mér finnst hins vegar staða þeirra þingmanna og ráðherra sem segjast vera andvígir aðild að Evrópusambandinu mjög sérkennileg þegar þeir á sama tíma berjast fyrir því að við sækjum um og þiggjum styrki af þessu tagi.