140. löggjafarþing — 109. fundur,  30. maí 2012.

samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

373. mál
[18:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það stendur hreinlega í samningnum, í b-lið 2. töluliðar 12. gr., með leyfi forseta:

„ESB-verktakar skulu undanþegnir virðisaukaskatti vegna þjónustu og/eða vara og/eða verka sem er veitt, eru afhentar eða unnin samkvæmt viðkomandi ESB-samningi.“

Síðan stendur í c-lið:

„Einstaklingar sem eru ekki búsettir á Íslandi og inna af hendi þjónustu og/eða vinna verk […] skulu undanþegnir tekjuskatti á Íslandi vegna tekna sem samningur af því tagi skapar.“

Íslendingar þurfa að borga tekjuskatt en útlendingarnir ekki.

Nú veit ég ekki hvað gerist í viðkomandi landi, hvað gerist ef Íslendingur flytur búferlum til Danmerkur og starfar svo þaðan sem starfsmaður á Íslandi. Þetta er það sem ég nefndi áðan að er sennilega í fullum gangi núna í heilum hundraða eða þúsunda manna og kvenna sem er að spekúlera í því hvernig þau geti gert sér mat úr þessum reglum og farið fram hjá þeim. Það er einmitt það sem er hættulegt.

Það sem ég ætlaði að nefna áðan er að í 1. lið 8. gr. stendur, leyfi hæstv. forseta:

„Almennt á miðlæg framkvæmdastjórn, sbr. skilgreiningu í grein 53a í fjárhagsreglugerðinni, við um framkvæmd stuðningsaðgerða IPA á Íslandi. Aðgerðir skal framkvæma samkvæmt þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í a-lið 53. gr., grein 53a og 54. til 57. gr. fjárhagsreglugerðarinnar.“

Þetta eru reglugerðir sem gilda innan Evrópusambandsins og hér er vísað í það að þetta skuli vera verklagið við framkvæmd.

Ég vænti þess að hv. utanríkismálanefnd hafi kynnt sér þessi ákvæði nákvæmlega og viti hvað þau eru að samþykkja.