Umræður um störf þingsins 31. maí

Fimmtudaginn 31. maí 2012, kl. 10:47:21 (11607)


140. löggjafarþing — 110. fundur,  31. maí 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fleiri þingmenn hafa nefnt í dag er augljóst að þeir atburðir sem áttu sér stað í atvinnuveganefnd þingsins í gær gefa ekki miklar vonir um að unnt verði að greiða fyrir þingstörfum. Ef í því tilboði eða þeim tillögum sem komu frá meiri hluta atvinnuveganefndar um breytingar á sjávarútvegsfrumvörpunum hefði falist einhvers konar málamiðlun að einhverju marki hefði það hugsanlega breytt stöðunni í þinginu, en þrátt fyrir að um ákveðnar tilslakanir sé að ræða, t.d. í sambandi við veiðileyfagjaldið, er enn um að ræða tillögur og frumvörp sem ganga augljóslega gegn grundvallarhagsmunum þessa atvinnuvegar með þeim afleiðingum að rekstur á þessu sviði verður óhagkvæmari og erfiðari en verið hefur, bæði fyrir þá sem í dag starfa a þessu sviði og eins fyrir aðra sem kynnu að bætast við.

Þetta er stóralvarlegt. Auðvitað er það svo að þrátt fyrir að þessi frumvörp verði samþykkt á þingi, jafnvel í lítið breyttri mynd, mun áfram verða gert út frá Íslandi, það verður áfram unninn fiskur á Íslandi og það verður áfram fluttur út fiskur. Auðvitað er það svo en spurningin er sú hvort við ætlum að gera það á hagkvæman hátt eða óhagkvæman og það er gegn hagkvæmni í greininni sem þessi frumvörp beinast.