140. löggjafarþing — 114. fundur,  7. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir hans ræðu og þau orð að þingmenn eigi ekki að tylla sér á herðarnar á þeim næstu til að upphefja sjálfa sig eða eitthvað í þá veruna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann aðeins um þau áhrif sem fiskveiðifrumvarpið kemur til með að hafa í okkar ágæta kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Nú hafa borist fjölmargar áskoranir frá sveitarstjórnarmönnum sem margir hverjir hafa eindregið varað við því að frumvarpið verði samþykkt — margar sveitarstjórnir tala um að þetta sé í raun ekkert annað en landsbyggðarskattur.

Ég vil nefna Langanesbyggð en sveitarstjórnarmenn þar benda á að þar hafi viss uppbygging orðið á undanförnum árum en hún verði fyrir bí ef frumvörpin verði að veruleika. Ég nefni einnig þau áhrif sem frumvörpin koma til með að hafa á Grýtubakkahrepp. Grýtubakkahreppur hefur haldið vel á sínum málum, tekið þátt í að reka útgerð og þar hefur verið blómleg atvinnustarfsemi, þó að Grenivík sé vissulega lítið byggðarlag sé tekið mið af Akureyri og öðrum þéttbýliskjörnum.