Þjónusta við börn með geðræn vandamál

Fimmtudaginn 07. júní 2012, kl. 10:56:53 (12521)


140. löggjafarþing — 115. fundur,  7. júní 2012.

þjónusta við börn með geðræn vandamál.

[10:56]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hvet hæstv. velferðarráðherra til að flýta því að þessi vinna fari í gang. Hún er mikilvæg. Vitað hefur verið til margra ára og margar skýrslurnar verið skrifaðar um að ráða þurfi bót á þeirri þjónustu sem börn þurfa á að halda sem glíma við margvíslegan vanda, hvort sem það er geð- eða þroskavandi, hvað þá þegar um hvort tveggja er að ræða. Við veitum þjónustu á mörgum stigum, hjá ríki, sveitarfélögum, í skólunum, í heilsugæslunni og þessi kerfi, þessi þjónustustig okkar tala ekki alltaf saman. Það er meira en að segja það að fá samfellu í þjónustuna en það er það sem við verðum að gera. Við verðum líka samhliða því að koma á samræmdri og miðlægri sjúkraskrá þannig að hægt sé að styðjast við greiningar (Forseti hringir.) og meðferð á milli kerfanna.

Ég hvet hæstv. ráðherra að flýta þessari vinnu.