Umræður um störf þingsins 8. júní

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 10:40:05 (12647)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni. Ég held að aldrei í Íslandssögunni hafi verið boðað til fundar með jafnmiklum peningaaustri, aldrei hafi fararskjótar til fundarins verið gerðir út jafndýrlega og aldrei hafi fundur mistekist jafnsvakalega og sá fundur sem var haldinn á Austurvelli í gær. Það er athyglisvert vegna þess að Landssamband íslenskra útvegsmanna sem boðaði til fundarins stefndi öllum þessum málum í þann punkt að hér ætti í raun og veru að fara fram sú táknræna valdataka sem breytti málum þeim í hag. Það er líka athyglisvert vegna þess að þingmenn úr þeim tveimur flokkum sem hér hafa veitt andstöðu með tíðum ferðum í ræðustól í máli sem nýtur meirihlutfylgis á þinginu og meirihlutafylgis meðal þjóðarinnar, stefndu líka á þennan punkt í gær, m.a. með því að krefjast þess að fundi á þingi yrði frestað meðan Landssamband íslenskra útvegsmanna héldi fundinn á Austurvelli.

Nú held ég að sé ráð að menn horfi í gaupnir sér og hver á annan á þinginu, einkum þeir sem stefndu að þessari ögurstundu í gær, og sjái að þetta mál er enn þá statt þar sem það er statt; á vegum meiri hluta þjóðarinnar í þinginu þar sem meiri hluti þingsins styður það. Ég held að núna eigum við að leyfa lýðræðinu að hafa sinn gang og tefja það ekki með frekari málþófi. Ég held að það sé okkur öllum til heilla og þjóðinni til heilla og ekki síst til heilla þeim þingmönnum sem vissulega hafa með miklum krafti og dugnaði reynt að koma í veg fyrir afgreiðslu málsins (Forseti hringir.) með mörgum ræðum í þeim stóli sem ég stend nú í.