Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 15:23:04 (12725)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara því hér hvort skiptingin eigi að vera 30/70, 40/60, 55/45 eða einhvern veginn öðruvísi. Ég held hins vegar að það sé full ástæða til þess fyrir okkur að taka þau frumvörp sem liggja fyrir, bæði það sem við ræðum nú, um veiðileyfagjaldið, og frumvarpið um stjórn fiskveiða, og reyna að ná einhvers konar samkomulagi um þau.

Ég held þó að það sé víðáttuvitlaust að reyna að keyra þessi frumvörp í gegn eins og þau liggja fyrir. Ég held að það sé víðáttuvitlaust að reyna að keyra í gegn frumvörp sem svo til hver einasti sérfræðingur hefur mælt gegn. Hvar eru til dæmis þeir hagfræðingar sem telja að lagt sé upp með góða hagfræðilega lausn í þessu frumvarpi og í frumvarpinu um stjórn fiskveiða? Auðvitað spila þau tvö frumvörp saman, þau eru ekki einingar, þau spila saman. (Forseti hringir.) Hvar eru þeir hagfræðingar?