Veiðigjöld

Föstudaginn 08. júní 2012, kl. 17:32:27 (12759)


140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[17:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjöld. Umræðan í dag hefur farið um víðan völl enda margt hægt að segja um þetta frumvarp, aðdraganda þess og vinnubrögðin sem viðhöfð hafa verið við vinnslu þess.

Frú forseti. Flestir tóku eftir því að mikill fundur var haldinn úti á Austurvelli í gær. Þeir sem lögðu við hlustir, hlustuðu á það sem ræðumenn sem þar töluðu sögðu, heyrðu að þar komu fram sjónarmið úr öllum áttum, frá fólki alls staðar að úr greininni, alls staðar að af landinu, og þau voru öll á einn veg. Menn höfðu miklar áhyggjur af því að þetta frumvarp sem og stóra frumvarpið um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem enn er fast í atvinnuveganefnd, verði lögfest óbreytt á Alþingi.

Þeir sem þarna töluðu kölluðu einfaldlega eftir því að við sem störfum hér á Alþingi hlustuðum á þær athugasemdir sem komið hafa fram um þessi mál. Það voru þær óskir og beiðnir sem fram komu í máli þeirra sem þar töluðu. Mér finnst því leiðinlegt að sjá viðbrögðin sem birtast okkur undir liðnum störf þingsins hér í dag, meðal annars hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þar sem augljóst er að þingmenn hafa ekki hlustað á það sem fram fór í gær. Það finnst mér leiðinlegt og sérstaklega í ljósi þess að Samfylkingin, annar stjórnarflokkanna og annar þeirra flokka sem bera þetta mál fram í þinginu, talaði fyrir því á sínum tíma að mikið samráð skyldi viðhaft og vildi innleiða samræðustjórnmál. Maður taldi þá að menn mundu að minnsta kosti vilja ræða hlutina, fara yfir athugasemdir og reyna að taka eitthvert mið af því sem fólk væri að segja. En því miður virðist svo ekki vera.

Það kom meðal annars fram í máli eins ræðumanns í gær að tilfinningin væri eiginlega sú að höfuðborgarsvæðið hefði notið góðs af hagvextinum fyrir fall íslensku bankanna en landsbyggðin hefði vart fundið fyrir þeim hagvexti. En nú þegar vel gangi á landsbyggðinni, þar sem stærstur hluti íslensks sjávarútvegs er, vilji menn gera þann hagvöxt upptækan með allt of þungum sköttum. Þessar áhyggjur birtust okkur í gær og ég tek undir þær og mælist til þess að hv. þingmenn í atvinnuveganefnd fari enn og aftur yfir málið með það í huga að lækka þá skatta sem þessi veiðigjöld eru. Þar sem meiri hluti þeirra sem starfa í þessari grein er úti á landi, því eins og fram kemur í álitsgerðum og þeim nefndarálitum sem hér birtast okkur eru 80–90% þeirra á landsbyggðinni, er réttnefni þessa skatts einfaldlega landsbyggðarskattur. Þannig er það, þannig eigum við að tala um hlutina.

Frú forseti. Í gær talaði einn fulltrúi frá þeim fyrirtækjum sem þjónusta fyrirtæki í sjávarútvegi og hafði miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þær miklu breytingar sem boðaðar eru, og þessi mikli skattur sem tillaga liggur fyrir um að leggja á sjávarútvegsfyrirtækin, muni hafa á fyrirtæki sem hafa sitt lifibrauð af því að þjónusta útgerðina. Mörg þessara fyrirtækja treysta alfarið á viðskipti við þá sem stunda sjóinn. Auðvitað hafði þessi fulltrúi þessara litlu og meðalstóru fyrirtækja miklar áhyggjur af því hvað væri fram undan og þær áhyggjur eru skiljanlegar.

Ef maður les þær álitsgerðir sem birtar hafa verið með þessu máli skilur maður vel að það eru ekki eingöngu þeir sem reka útgerðarfyrirtækin og ekki eingöngu sjómennirnir eða landverkafólkið sem hefur áhyggjur. Maður skilur vel að þau fyrirtæki sem þjónusta útgerðina hafi áhyggjur. Ég tel að atvinnuveganefnd ætti að hlusta á þessar raddir og skoða hvort ekki sé rétt að setjast niður, fara yfir málið aftur og reikna það út hvað breytingarnar sem gerðar hafa verið á umræddu frumvarpi milli umræðna kosta.

Í nefndaráliti 1. minni hluta kemur fram að slíkir útreikningar liggi ekki fyrir. Talað er um og hefur komið fram við umræðuna hér að veiðigjaldið eða landsbyggðarskatturinn verði eftir breytingar að fjárhæð um 15 milljarðar kr., sem muni koma í ríkiskassann. Aðrir hafa fullyrt að þetta sé rangt, að um verði að ræða 21 milljarð kr. eftir breytingar. Hvað er rétt í þessu? Hvers vegna liggja ekki fyrir formleg gögn eða útreikningar sem styðja þessa tölu, 15 milljarða?

Þá á jafnframt eftir að styðja það frekari gögnum að sú ívilnun, sem gert er ráð fyrir í bráðabirgðaákvæði II, nemi 2–2,5 milljörðum. Það kemur fram í þessu nefndaráliti að engin úttekt hafi verið gerð á því hvort þessi ívilnun nægi til að afstýra þeirri hættu sem frumvarpið óbreytt hefði í för með sér. Ég tel því að þó nokkur vinna sé eftir við það að rökstyðja það fyrir okkur, sem eigum svo að taka ákvarðanir hér á Alþingi, að þetta sé allt í lagi.

Frú forseti. Það er frekar sjaldgæft, tel ég, að jafnalvarlegar athugasemdir berist við þingmál frá ríkisstjórn og maður sér í þessu máli. Ég vísa þar sérstaklega til niðurstöðu hagfræðinganna Daða Más Kristóferssonar og Stefáns B. Gunnlaugssonar sem liggur hér frammi. Ég tel farsælast fyrir okkur öll að taka þetta mál einfaldlega til baka, að nefndin setjist yfir það og skoði hvort ekki sé hægt að setja fram skýrari leið, einhverja útreikninga á því hvað hún muni þýða, í staðinn fyrir að renna svona blint í sjóinn eins og manni sýnist vera gert í þessu máli.

Frú forseti. Ég ætlaði í ræðu minni að fara aðeins yfir stjórnarskrána en borist hafa ábendingar um það að frumvarpið um veiðigjöld stangist mögulega á við hana þar sem um sé að ræða skýrt framsal á skattlagningarvaldi og ekki er heimilt að framselja það. Ég vísa meðal annars í greinargerð frá Mörkinni lögmannsstofu hf. sem unnin var fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Þar eru athyglisverðar vangaveltur um ýmislegt, t.d. um eignarréttinn, en jafnframt er bent á að þessi aðferð standist ekki gagnvart stjórnarskránni. Almenna veiðigjaldið sé flatur skattur og sérstaka veiðigjaldið lagt á með flóknum útreikningsaðferðum og það þýði jafnframt að réttarheimildin sem skatturinn byggir á sé ekki nægilega skýr. Ég tel að við eigum að hlusta á þessar athugasemdir.

Mig langar að vita hvort nefndin hefur farið yfir þetta, af nefndarálitinu að dæma er eins og sagt sé bara: Nei, við teljum að þetta sé ekki rétt. En það er ekki rökstutt hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu þrátt fyrir að fyrir liggi álitsgerðir frá aðilum eins og til dæmis Mörkinni lögmannsstofu. Ég óttast, frú forseti, að þeim spurningum sem óneitanlega vakna um leið og maður les þetta frumvarp yfir hafi einfaldlega ekki verið svarað í nefndinni. Ég tel að það sé þess vegna sem menn sem hafa skilað athugasemdum og umsögnum um málið telja að ekkert sé á þá hlustað. Þannig lítur þetta einfaldlega út.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Ég hélt að við ætluðum að bæta vinnubrögðin í þinginu, ég bar miklar vonir í brjósti um það. En ég get ekki séð af þessu máli að svo sé.