140. löggjafarþing — 116. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[01:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Að ósk stjórnarandstöðunnar var fallist á að hér yrði tvöfaldur ræðutími um þetta mál, enda um mikilvægt að ræða það og ljóst að margir vildu tjá sig um það. Það hafa þingmenn gert með ágætum í heila viku og fullyrða samt sem áður að margt sé eftir ósagt, það eigi eftir að ræða þetta mál lengi og að menn muni standa vaktina til enda. Þess vegna tel ég afar brýnt að þingmönnum gefist sá tími sem fært er að gefa til að ræða þetta mál. Ég geri þá tillögu við hæstv. forseta að þingfundi ljúki á vaktaskiptum kl. 6.30 í fyrramálið og þingmenn geti þá farið heim og hvílt sig.

Hinn kosturinn er auðvitað sá að þingmenn telji þetta mál vera það mikið rætt í þingsal nú í nótt að því verði aftur vísað til umræðu í atvinnuveganefnd. En ég legg til að við verðum hér út þessa vakt og förum heim á vaktaskiptum.