Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 14:16:16 (13096)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það sem ég átti eiginlega við var að kerfi eins og er í dag er reiknað aftur í tímann. Gjöldin eru lögð á eftir á miðað við reynslu síðustu ára.

Þeir sem hafa verið í viðskiptum og atvinnulífi — það eru ekki voðalega margir hv. þingmenn, því miður, og ég vona að ég sé ekki að móðga neinn með því að segja það — vita að aðstæður breytast mjög hratt. Nú er til dæmis fundur í dag hjá fjármálaráðherrum allra Evrópusambandsríkjanna þar sem þeir ætla að taka afstöðu til vandræðanna á Spáni. Þau geta haft gífurleg áhrif á stöðu evrunnar, á stöðu fiskmarkaða Íslands, en samt ætlum við að innheimta skatta miðað við þá glimrandi góðu stöðu sem var í sjávarútvegi á Íslandi á síðasta ári og sem er núna en aðstæður gætu breyst mjög hratt.