Veiðigjöld

Laugardaginn 09. júní 2012, kl. 14:37:14 (13111)


140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[14:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Maður er frekar tregur til að lenda í þessum leikþáttum sem stjórnarandstaðan heldur hér uppi inn á milli umræðna í málþófinu, en af því að hvort sem er er verið að drepa tímann er ekki mikill skaði skeður. (Gripið fram í.)

Ég verð að segja að sumt sem hér er sagt er svo yfirgengilegt út frá störfum okkar sem þingmanna eða ráðherra að það er dálítið merkilegt á að hlusta.

Hæstv. iðnaðarráðherra er að gegna embættisskyldum austur á landi og er þar af leiðandi með fjarvist frá þinginu á meðan eins og alsiða er.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kvartar undan því að geta ekki verið eystra og ég skil hann vel en þannig er að ef þingmenn eiga öðrum ríkum skyldum að gegna þurfa þeir sjálfir að velja og biðja um fjarvist frá störfum þingsins á meðan. Þetta er alsiða eins og hv. þingmenn þekkja.

Þannig er það t.d. með okkur þingmenn Norðausturkjördæmis að okkur býðst að vera á Akureyri í dag við útskrift Háskólans á Akureyri og við skóflustungu að nýrri byggingu, í umræddri athöfn á Reyðarfirði og í þriðja lagi er fundur á Alþingi. Við þurfum að velja á milli og það er okkar sjálfra að ákveða það. (Forseti hringir.)

Ég hef verið hér við alla þessa umræðu. Ég er flutningsmaður málsins og (Forseti hringir.) hef lagt á mig þá mannraun að hlusta á þetta allt saman og (Forseti hringir.) undan því verður ekki kvartað og þar af (Forseti hringir.) leiðandi er engin réttmæt krafa um að aðrir ráðherrar (Forseti hringir.) séu algjörlega bundnir við það að sitja (Forseti hringir.) í salnum.