Umræður um störf þingsins 13. júní

Miðvikudaginn 13. júní 2012, kl. 10:36:34 (13399)


140. löggjafarþing — 120. fundur,  13. júní 2012.

störf þingsins.

[10:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt spurning hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal vegna þess að stjórnarandstaðan í það minnsta hefur ekki haft neitt veður af þessu eða haft aðkomu að því að ræða við ríkisstjórnina um þessa vá sem kann að vera fyrir dyrum. Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um að verið sé að vinna viðbragðsáætlun sem þarf klárlega að vera til staðar fari allt á versta veg í Evrópu, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki. Þetta kemur samt heim og saman, frú forseti, við spurningar sem sá er hér stendur hefur margoft spurt hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, um hvort til sé einhver viðbragðsáætlun við mögulegu nýju efnahagshruni. Ég hef ekki fengið skýr svör og ég held reyndar að slík áætlun sé ekki til. Þar af leiðir að eðlilegt er að við þingmenn köllum eftir því að ríkisstjórnin upplýsi okkur nákvæmlega um þessa vinnu og hvernig hún er, hvaða aðilar hafa komið að henni og hvaða framtíðarmúsík við erum að sjá varðandi viðbrögð við mögulegri kreppu í Evrópu.

Nærtækast er að horfa fyrst á þetta því að hvað tímann varðar virðist sem meiri líkur séu á því að það verði alvarlegt ástand í Evrópu heldur en alheimskreppa eins og var fyrir ekki svo löngum tíma, haustið 2008. Við þurfum að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart því. Evrópa er enn þá okkar stærsta markaðssvæði. Við flytjum þangað út obbann af útflutningsvörum okkar, þar eigum við mikil viðskipti og þar af leiðandi er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með áætlun sem er trúverðug.

Ég tek því undir með hv. þingmanni og óska eftir því að efnahags- og viðskiptaráðherra eða fjármálaráðherra geri grein fyrir því hvernig þessi áætlun er uppbyggð. Hún verði lögð fyrir þingmenn og kynnt þingmönnum því það er að sjálfsögðu okkar að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég lít svo á að hv. þingmaður sé að reyna að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu þegar hann spyr um þetta, en lítið er um svör.