Framhald þingstarfa

Laugardaginn 16. júní 2012, kl. 10:02:14 (13726)


140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að spyrja hversu lengi eigi að halda þingi áfram. Ákveðið var í vikunni sem nú er að líða að þingi yrði frestað í gær eða í síðasta lagi í dag og var rætt um það á fundum þingflokksformanna að svo yrði gert. Þar af leiðandi hafa einhverjir þingmenn og sjálfsagt starfsfólk líka gert aðrar áætlanir en að vera hér næstu viku. Nú sjáum við hins vegar fram á að breyting verði á þessu. Við hljótum því að spyrja okkur hvernig standi á því að þetta sé svona.

Óvissan um þingstörfin er mikil, það er alveg ljóst hvað þarf til að klára þessi þingstörf. Flestir, því miður ekki allir, eiga að hafa skilning á því að hér þarf að gera sumarhlé, þótt ekki nema væri fyrir það starfsfólk sem hér vinnur daga og nætur. Ég kalla eftir því, frú forseti, að menn slái sem allra fyrst botninn í það þing sem nú stendur.