Matvæli

Laugardaginn 16. júní 2012, kl. 13:11:43 (13788)


140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

matvæli.

387. mál
[13:11]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta litla frumvarp sem þó er dálítið ríkt að efnisinnihaldi er klassískt dæmi um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir þegar við erum annars vegar að setja reglur sem tryggja eftirlit. Eftir því er mjög kallað í samfélaginu að eftirlit með til dæmis matvælum sé þannig að neytendurnir geti treyst því. Síðan er hitt sjónarmiðið sem líka er kallað eftir að við virðum og eigum auðvitað að virða, persónuverndarsjónarmiðin. Þarna vógust þau klárlega á. Þá þurftum við að taka ákvörðun á grundvelli stjórnarskrárinnar, persónuverndarlaga og matvælalöggjafarinnar og reyna að feta þann meðalveg sem tryggði aukið eftirlit með heilnæmi og síðan líka að tryggja þessi persónuverndarréttindi.

Auðvitað er það rétt að við þurfum að geta gefið okkur góðan tíma til að íhuga það. Þess vegna er mjög æskilegt að nefndirnar hafi góðan tíma til þess. Atvinnuveganefnd var hins vegar í miklum önnum á þessum tíma, en ég hygg að það hafi svo sem ekki afsakað neitt. Það tók líka Persónuvernd langan tíma að taka afstöðu til þessarar breytingartillögu. Þannig gerast hlutirnir. Þess vegna höfum við þrjár umræður í þinginu til að reyna að greiða úr því en allt þetta kallar á að við tryggjum (Forseti hringir.) að mál af þessu tagi sem og önnur fái góða efnislega meðhöndlun.