Fjármálafyrirtæki

Mánudaginn 18. júní 2012, kl. 22:46:28 (13978)


140. löggjafarþing — 125. fundur,  18. júní 2012.

fjármálafyrirtæki.

762. mál
[22:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Ég ætla að fara aðeins yfir þetta mál og sparisjóðina almennt. Menn gleyma því að menn töldu það almennt eftir bankahrunið að staða sparisjóðanna væri miklu betri en annarra fjármálastofnana. Það reyndist rangt. Í umræðunni hefur maður iðulega heyrt talað um hlutafélagasparisjóði og að fallið hafi bara verið þar, því fer víðs fjarri. Í tilfelli SpKef, eða Sparisjóðs Keflavíkur og nágrennis, sem ekki var bara starfandi þar heldur líka á Norðurlandi og Vestfjörðum var ástandið mjög erfitt eins og menn þekkja.

Gert var ráð fyrir því, ef ég man rétt, í neyðarlögunum að hægt væri að setja úr ríkissjóði að hámarki 25% af stofnfé, og ég setti ákveðnar reglur um það sem settur fjármálaráðherra í tengslum við þau mál, en núverandi hæstv. ríkisstjórn með hæstv. ráðherra, Steingrím J. Sigfússon, í broddi fylkingar fór síðan allt aðrar leiðir. Það hefur kostað skattgreiðendur gríðarlegar upphæðir og er mjög mikilvægt að skoða það. Þar mega menn ekki láta spunavélar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna villa sér sýn. Það hefur enginn reynt að gera lítið úr því að ef menn misfara með eitthvað, sama hvaða fjármálastofnun það er og frá hvaða stjórnmálaflokki, þá er það auðvitað alvarlegt og á því þarf að taka, en það breytir ekki efnisatriðum í því máli. Það er algerlega óþolandi og sérstaklega óþolandi að látið er bara eins og þetta sé ekki neitt mál. Þær beiðnir og þau gögn sem hv. þingmenn hafa beðið um í tengslum við það fást ekki. Þau eru ekki afhent en hins vegar eru þau í fjölmiðlum landsins og sérstaklega notuð núna í spunavinnslu ríkisstjórnarflokkanna. Reynt hefur verið að draga athyglina frá aðalatriði málsins með óskyldum þáttum með því að koma upplýsingum sem hv. þingmenn fá ekki en eiga að fá, enda eigum við að sinna eftirlitshlutverki okkar, þeim virðist vera komið til fjölmiðla. Ef það er ekki frá stjórnvöldum þá er það að minnsta kosti gríðarlega mikil tilviljun að þetta sé að detta inn nákvæmlega núna. Það er umhugsunarefni svo ekki sé dýpra í árinni tekið og fullkomlega óþolandi að staða þingsins sé þannig að það sé undir slíku ægisvaldi hjá núverandi ríkisstjórn að menn komist upp með það að láta ekki gögn af hendi sem eiga að vera opinber, eru ekki bara fyrir hv. þingmenn heldur líka fyrir almenning. Menn skyldu því spara stóru orðin þegar menn eru að ræða um sparisjóðina hvort sem það eru hv. þingmenn Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar. Þeir ættu að líta sér nær og fara að beita sér fyrir því ef þeir hafa einhvern dug í sér eða meina eitthvað um stöðu þingsins og meina eitthvað með því að þeir vilji opið og gagnsætt stjórnkerfi og þannig sé unnið, þá ættu þeir að leggjast á árar með að sjálfsagðar upplýsingar verði látnar til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og þeirra þingmanna sem hafa beðið um þær. Meðan menn gera það ekki þá er það algert ómark það sem þeir segja hér í ræðustól um þessi mál.

Því miður, virðulegi forseti, hefur þetta ekki bara snúið svona að þessu máli, SpKef og Byr, heldur líka að lagasetningu sem farið var í um sparisjóðina. Því miður horfðu menn ekki raunsætt á málin. Við getum sagt að þau lög sem samþykkt voru um mitt ár 2009 um sparisjóðina þar sem menn höfðu uppi gríðarlega stór orð, öll þessi hugtök, græðgisvæðing og hvað það var allt, hafa nærri gengið af sparisjóðakerfinu dauðu. Framganga ríkisstjórnarinnar hefur nærri gengið af sparisjóðakerfinu dauðu.

Núna erum við í þeirri stöðu að 95% af inneignum eru í þremur bönkum. Samþjöppunin sem er mæld á Herfindahl-Hirsehman Index, sem er ein áreiðanlegasta vísbending sem hægt er að finna í þessu og mikið notuð af samkeppnisyfirvöldum um allan heim, sá mælikvarði segir að ef samþjöppun fer upp fyrir 1800 stig á þeim mælikvarða þá er hún orðin mikil. Hún hefur alltaf verið mikil á Íslandi en þó undir 2000 stigum fyrir bankahrun. Núna er hún komin upp í 3000 stig og það hefur gerst á vakt núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Í þeim endalausa feluleik, hvað sem menn eru svo sem að gera, hvort sem það er varðandi eignarhald á bönkunum eða fyrirgreiðslur til einstakra fjármálastofnana, þá hefur orka hæstv. ríkisstjórnar fari í það og á meðan hefur samþjöppunin vaxið svona gríðarlega. Augljóst er að þau lög sem áttu að hafa það að markmiði að hér væru einungis sjálfseignarsparisjóðir, hlutabréfasparisjóðir máttu alls ekki vera, allt var lagt í það að koma í veg fyrir að hugsanlega gæti einhver hagnast á því að eiga sparisjóð, þau lög hafa nokkurn veginn gengið af íslenska sparisjóðakerfinu dauðu. Hæstv. núverandi ríkisstjórn ber ábyrgð á því. Og þegar þessi mál voru rædd hér í júní 2009 — ég hvet menn til að skoða þá umræðu — voru allir þeir sem höfðu einhverjar efasemdir með þetta mál og bentu á augljósa vankanta þeirrar lagasetningar, þeim voru ekki vandaðar kveðjurnar.

Núna erum við komin með nýtt frumvarp sem fyrst og fremst gengur út á það að gera möguleikana að búa til hlutafélagasparisjóði. Hér talaði hv. þm. Jón Bjarnason um skilgreiningu á starfssvæði. Ég veit ekki hvort hv. þingmenn átti sig á því að starfssvæði getur verið allur heimurinn. Það eina sem viðkomandi sparisjóður þarf að gera er að skilgreina hvar starfssvæði er. Hann gæti sagt þess vegna að það væri Norður-Evrópa eða öll Evrópa. Ég tel þó svo það sé sagt að sú vinna sem er unnin af hálfu sparisjóðanna sé góð. Ég vona að við séum ekki að horfa fram á þessa gríðarlega miklu samþjöppun áfram en ég hef áhyggjur af því vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur algerlega brugðist í því að klára þá vinnu sem lofað var, því að vorið 2009 var því lofað að fara í vinnu til að koma með tillögur um framtíð fjármálamarkaðarins. Ekkert af því hefur gengið eftir. Þær aðgerðir sem var farið í hafa ýmist kostað skattgreiðendur gríðarlega fjármuni eða þá gengið var að ákveðinni tegund fjármálastofnana og gengið nokkurn veginn frá þeim og þá aðallega smærri fjármálastofnunum, sérstaklega sparisjóðunum þvert á það sem sagt var og ætlað var. Við þetta má ekki búa.

Ég held að þetta frumvarp sé til bóta en vek athygli hv. þingmanns, sem talar hvað mest um að það skipti máli að hafa hér sjálfseignarstofnanir, á því að menn eru ekki búnir að vinna þá vinnu, þvert á móti, og ýmislegt sem bendir til þess að það muni heyra sögunni til, og örugglega ef ekkert er gert og jafnvel þó að þetta frumvarp fari í gegn.

Síðan hvet ég hv. þingmenn til að huga að því, ekki mín vegna eða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins eða annarra þingmanna stjórnarandstöðunnar heldur þingsins vegna, og hugsa um það að undir forustu þessarar ríkisstjórnar fá hv. þingmenn ekki upplýsingar eins og ársreikninga, stofnefnahagsreikninga, upplýsingar um kostnað, sem ættu að vera opinber gögn, en fjölmiðlar fá jafnvel upplýsingar sem menn vissu ekki að væru til, skýrslur sem menn vissu ekki að væru til þrátt fyrir að vera búnir hvað eftir annað að ræða þessi mál og spyrjast fyrir um þau á undanförnum mánuðum og missirum. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji sjá góð vinnubrögð — oft tala menn um breytt og bætt vinnubrögð — núverandi hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn bera ábyrgð á miklu verri vinnubrögðum en nokkurn tíma hafa sést. En ef þeir meina eitthvað með því að þeir vilji sjá breytt og bætt vinnubrögð þá hvet ég menn til að gera þá eitthvað í því.