Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 19. júní 2012, kl. 23:34:30 (14163)

140. löggjafarþing — 129. fundur,  19. júní 2012.

stjórn fiskveiða.

856. mál
[23:34]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að hér er verið að greiða atkvæði um að framlengja um eitt ár bráðabirgðaákvæði sem samþykkt voru í fyrra við stjórn fiskveiða og var að mínu viti mikilvæg framfaraspor. Menn náðu þarna að framlengja meðal annars ákvæði þar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur bundið meðferð aflaheimilda ákveðnum skilyrðum eða ákveðið að óheimilt sé að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstaka sveitarfélögum eða byggðarlögum þegar um er að ræða umtalsverðan hluta aflaheimilda í viðkomandi byggðarlagi. Þetta er ákveðin trygging fyrir byggðarlögin. Þetta var einmitt ákvæði sem sett var í lög í fyrra til bráðabirgða.

Einnig er verið að framlengja um eitt ár ráðstöfun á 2.000 lestum af íslenskri síld sem var ákveðin í fyrra og kom sér afar vel og líka 2.000 lestir af norskri síld. Þá er einnig áfram inni skötuselsákvæðið fræga sem hefði annars fallið út ef það frumvarp sem var lagt fram fyrr í vetur hefði verið samþykkt. Þarna er það inni og verður þar að minnsta kosti til næsta árs og ég fagna því líka. Fyrir utan þetta helst sú viðbót sem var lögð í strandveiðarnar og í byggðakvóta áfram um eitt ár sem annars hefði verið skorið niður í, a.m.k. í byggðakvótanum.

Ég legg áherslu á að það er mjög gott að hér skuli vera framlengd um eitt ár nokkur þau mikilvægu ákvæði sem voru samþykkt á Alþingi í fyrravor. Ég fagna því og greiði svo sannarlega atkvæði með þessum tillögum.