Sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 10:41:25 (531)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

sameining sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

[10:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég deili um margt framtíðarsýn hv. þm. Þórs Saaris um framtíðarskipulag á þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorninu. Það er tvennt sem ég hef viljað leggja áherslu á um sveitarfélögin, annars vegar almennt að sveitarstjórnarstigið verði eflt sem stjórnsýslustig og hins vegar að nærlýðræði verði eflt.

Varðandi fyrri þáttinn virðist þróunin vera í þá átt, góðu heilli, að sveitarfélög í landshlutum hafa tekið sig saman um margvísleg sameiginleg viðfangsefni. Nærtækast er að benda á almannasamgöngur, í því efni hafa verið gerðir samningar á Suðurlandi og fleiri slíkir samningar eru í bígerð annars staðar á landinu. Samstarf um slökkvilið og aðra þætti er ein þróun.

Síðan er hitt að hverfisráð eru að festa sig í sessi sem og áhersla á nærlýðræðið. Ég held að þetta tvennt verði til þess að skipulagsformin á suðvesturhorninu komi til með að brotna upp. Menn koma til með að horfa heildstætt á hlutina jafnframt því sem krafan verður um að brjóta upp hinar stóru einingar.

Sú framtíðarsýn sem hv. þingmaður lýsir um heildstætt samstarf í stærri einingum en nemur núverandi sveitarfélögum á suðvesturhorninu jafnframt því sem skipulagsformin verði endurskoðuð og komi hugsanlega til með að smækka, að Reykjavík (Forseti hringir.) muni smækka sem slík, rímar ágætlega saman við þessar framtíðarhugmyndir hv. þingmanns.