Dýravernd

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 15:40:40 (615)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað, að það er gott að vinna sé í gangi við nýja heildstæða löggjöf með það að markmiði að auka dýravelferð, hvort sem á við um gæludýr eða dýr í landbúnaði.

Það verður að nálgast alla slíka löggjöf af ákveðinni skynsemi. Við höfum rætt hér t.d. um vinnubrögð við geldingar á grísum og fleiri dýrum. Það verður að taka tillit til aðstæðna í hvert sinn. Segja má að það sé ákveðið tvöfalt siðgæði hjá okkur þegar kemur að matvælaverði og svo matvælaframleiðslu. Okkur hefur öllum ofboðið oft á tíðum að sjá hvað aðbúnaður virðist oft vera mjög slæmur, sérstaklega víða erlendis, í verksmiðjuframleiðslu á matvælum. Ég vil trúa því að almennt sé staðan miklu betri hérlendis að þessu leyti og að velferð dýra sé almennt í góðu standi.

Veiðar eru hluti af matvælaframleiðslu. Við erum veiðimannasamfélag og þess vegna þarf löggjöf sem að þessu snýr að taka tillit til þess líka. Veiðiaðferðir eru þannig að dýr geta særst. Það fylgir slíkri matvælaframleiðslu. Þar verðum við að horfa til þess að margar þjóðir hafa sýnt í þeim málum tvöfalt siðgæði. Mér dettur þá helst í hug andstaða margra þjóða við hvalveiðar. Oft hefur dauðastund eða dauðatími hvala verið þar til umræðu og að tryggja verði drápsaðferðirnar. Menn hafa viljað stöðva hvalveiðar tímabundið á þeim nótum. Þannig hafa t.d. Ástralir, innan hvalveiðiráðsins, gagnrýnt harðlega drápsaðferðir á hvölum. Á sama tíma og þeir gerðu það, þurftu þeir að grisja kameldýrastofn sinn um 70 þúsund dýr. Þeir gagnrýndu drápsaðferðirnar út frá því (Forseti hringir.) að skip væri ekki nógu stöðugt far til að skjóta hvali, en þeir skutu (Forseti hringir.) öll sín kameldýr úr þyrlum. Þetta er tvöfalt siðgæði sem ég held að við verðum að hafa í huga (Forseti hringir.) þegar við vinnum að löggjöf um dýravernd.