Dýravernd

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 15:52:57 (621)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

dýravernd.

[15:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir umræðuna. Hún er virkileg hvatning til að því verki sem er í gangi í ráðuneytinu um að setja fram heildstætt frumvarp til laga um dýravelferð verði lokið sem fyrst. Frumvarpið hefur fengið vandaðan undirbúning og ég á von á því að það megi leggja fram á þingi fyrir jól.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um varðandi leyfisskyldu á dýrahaldi erum við minnug þess að sú leyfisskylda er þegar fyrir hendi á fjölmörgum sviðum. Flestir sem stunda atvinnurekstur með dýr þurfa til þess leyfi og eru bæði með rekstrarleyfi og skilgreint eftirlit. Síðan þarf í mörgum tilfellum leyfi fyrir gæludýr; hundaleyfi o.s.frv. Það er sjálfsagt að fara yfir það allt en aðalatriðið er að umgjörðin sé heildstæð þannig að hægt sé að veita upplýsingar, ráð, eftirlit og þjónustu. Ég vil ekki gera lítið úr þeirri þjónustu sem þarf að vera í boði fyrir fólk sem er í þessum efnum.

Varðandi dýralækna og dýralæknaþjónustu í landinu hefur verið sett reglugerð þar sem kveðið er á um lágmarksdýralæknaþjónustu um allt land. Eftirlit og dýralæknaþjónusta hafa verið aðskilin en engu að síður hafa verið gerðir samningar við viðkomandi um þá þjónustu. Það kostar fjármagn og það veltur kannski mest á því, en þó er nú gert ráð fyrir því í fjárlögum núna með um 17 millj. kr. framlagi.

Varðandi verksmiðjubúin get ég tekið heils hugar undir að það er alvörumál, ekki síst siðferðislega séð. Nú er (Forseti hringir.) í vinnslu frumvarp sem tekur á svínarækt og svínabúum, en þetta er alvörumál. Ég tek undir (Forseti hringir.) það sem fram kom í umræðunni, m.a. hjá hv. þingmanni sem nú situr í forsetastól, að það er ekki (Forseti hringir.) síst mikilvægt að fara vel með dýrin, allt til slátrunar. Það skiptir miklu (Forseti hringir.) máli.