Stöðugleiki í efnahagsmálum

Fimmtudaginn 13. október 2011, kl. 15:55:54 (622)


140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

stöðugleiki í efnahagsmálum.

5. mál
[15:55]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Háæruverðugur forseti. Ég ætla ekki að verja miklum tíma í að rekja það sem hefur verið gert rangt í efnahagsmálum undanfarin ár heldur einbeita mér að því að fara yfir þær tillögur sem birtast í þessari þingsályktunartillögu sem hefst svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða sem hafi að markmiði að efla stöðugleika í efnahagsmálum, endurskipuleggja skuldir heimila og fyrirtækja og breyta áherslum í skattamálum:“ — Svo eru rakin þau atriði sem huga þarf sérstaklega að í fimm meginliðum eða köflum.

Þótt ég hafi nefnt í upphafi að ég ætli ekki að eyða miklum tíma í að fara yfir það sem hefur verið gert rangt þá er þó rétt að nefna sem útgangspunkt það sem blasir í rauninni við öllum að þær aðferðir sem notaðar hafa verið hafa ekki virkað. Plan A eins og það hefur verið kallað hefur ekki virkað. Hæstv. forsætisráðherra hefur margoft sagt að það væri ekki um neitt annað að ræða, það væri ekki til neitt plan B. En þegar við sjáum afrakstur plans A er mikilvægt að finna plan B. Það er svo sannarlega hægt að finna það til að nýta þau gríðarlega miklu tækifæri sem þrátt fyrir allt eru til staðar og ég held að almennt séu menn sammála um að tækifærin á Íslandi séu mjög mikil en þau eru hins vegar að glatast dag frá degi. Við höfum glatað mjög stórum tækifærum nú þegar en þau sem eftir standa eru engu að síður það stór og mikil að það er ekki seinna vænna að nýta þau. Í rauninni er ekki flókið það sem þarf að gera til að við getum nýtt öll tækifærin.

Tækifærin felast í rauninni í þeim fimm atriðum sem rakin eru í þessari þingsályktunartillögu. Sé hugað vel að þeim kemur allt hitt með, þá þurfum við ekki að hafa verulegar áhyggjur af öðrum þáttum. Þetta eru sem sagt þau grundvallaratriði sem stjórnvöld þurfa að koma í lag til að efnahagskerfi landsins geti virkað sem skyldi og þjóðin öll farið að njóta góðs af þeim tækifærum sem hún býr yfir. Ég ætla að fara stuttlega yfir þessi fimm atriði.

Efst á blaði er endurskipulagning skulda. Það höfum við verið að tala um býsna lengi, alveg frá hruni hafa þingmenn Framsóknar hamrað á mikilvægi þess að ráðist yrði í endurskipulagningu eða raunar leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja. Ég hef margoft áður rakið þau tækifæri sem voru til þess sem að einhverju leyti fóru forgörðum en þó eru enn miklir möguleikar á því að bæta úr og það sem meira er, það eru ekki bara möguleikar heldur knýjandi nauðsyn. Hinn valkosturinn er í rauninni ekki fyrir hendi, þ.e. að bregðast ekki við.

Við leggjum til að þessu samhliða verði ofuráhersla lögð á verðtrygginguna sem grundvallaratriði í allri áætlunargerð ríkisins og hún afnumin. Hæstv. núverandi forsætisráðherra hefur talað um mikilvægi þess áratugum saman að afnema verðtrygginguna. Nú er hins vegar tækifæri til að gera slíkar breytingar og mikilvægt að nýta það vel en það þarf að gerast samhliða leiðréttingu á þeim skuldum sem hrúgast hafa upp, hinum svokölluðu stökkbreyttu skuldum, og ekki er innstæða fyrir, hvorki af hálfu heimila né fyrirtækja, nema ráðist verði í leiðréttingu.

Hvað varðar svigrúm fjármálastofnana til að ráðast í leiðréttingu þá virðist það enn vera mjög á reiki. Menn heyra ýmsar tölur. Blaðamenn áætla tölur, Seðlabankinn leggur eitthvað allt annað fram og hæstv. efnahagsráðherra enn annað. Það er alla vega ljóst að svigrúmið er þrátt fyrir allt töluvert því að lán bæði heimila og fyrirtækja voru færð yfir í nýju bankana með verulegri afskrift. Það er auðvitað sanngirnisatriði og um leið efnahagslega mikilvægt að þetta svigrúm sé látið ganga áfram til þeirra sem skulda.

Hver á aðkoma ríkisins að vera í því? Hún getur verið sú að koma á því samráði sem þarf um framkvæmd þessa vegna þess að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að hver og einn banki grípi til verulegra afskrifta nema bankinn vænti þess að aðrar fjármálastofnanir muni gera nokkurn veginn hið sama því að hin jákvæðu efnahagslegu áhrif af skuldaleiðréttingu, sem hefðu auðvitað mjög góð áhrif á bankana ef þau kæmu til, skila sér ekki nema allir eða sem allra flestir bankar og fjármálastofnanir taki þátt. Þar getur ríkið komið að eins og það hefði reyndar átt að gera strax í byrjun árs 2009 og síðan í Þjóðmenningarhúsinu í fyrra. Ríkið gæti samræmt þessar aðgerðir og reiknað dæmið til enda með bönkunum þannig að þeir sæju sér hag í því. Hvati af hálfu ríkisins getur líka birst í einhvers konar samkomulagi um það að bankarnir búi þegar afskriftirnar hafa farið fram við tiltölulega stöðugt rekstrarumhverfi. Þar á ég til að mynda við skattlagningu. Stöðugt eru í gangi hugmyndir um sérstaka skatta á fjármálastofnanir og nú síðast voru slíkar hugmyndir kynntar í fjárlagafrumvarpinu. Það væri því til mikils vinnandi fyrir þessar stofnanir ef þeim yrði veitt eitthvert vilyrði fyrir því að þær mundu búa við stöðugleika næstu árin. Slíkar aðgerðir má nota til að knýja á um afskriftir. Ef annað dugar ekki til þá er að sjálfsögðu hægt að ráðast í lagasetningu. Við höfum fært rök fyrir því að slík lagasetning sé réttlætanleg og eðlileg og hafi verið það sérstaklega á meðan bankarnir voru á hendi ríkisins en geti enn verið framkvæmanleg þó að nýju bankarnir hafi verið stofnaðir.

Annað atriðið eru gjaldmiðilsmál og peningamálastefna. Þar leggjum við til að gjaldeyrishöft verði afnumin eins fljótt og mögulegt er og hvetjum til þess að það klárist fyrir mitt ár 2012, þ.e. fyrir mitt næsta ár. Ég efast ekki um að hæstv. efnahagsráðherra muni þykja þetta metnaðarfull áætlun en hins vegar er mjög margt sem bendir til þess að hún eigi ekki að vera verri eða dýrari en það að viðhalda gjaldeyrishöftum í fimm ár í viðbót, eins og rætt var um upphaflega þegar til stóð að framlengja höftin, vegna þess að efnahagslegt tjón hverja viku og hvern mánuð sem þessi höft eru í gildir heldur bara áfram að hrannast upp. Það þarf að grípa til aðgerða í millitíðinni til að undirbúa þetta og menn geta velt fyrir sér aðferðum sem Seðlabankinn er byrjaður að þreifa sig áfram með eins og að bjóða upp erlendan gjaldeyri og hvort ekki væri hægt að ná betri árangri í slíkum uppboðum, þ.e. sölu Seðlabankans á gjaldeyri til þeirra sem vilja losna frá krónum, ef menn stæðu frammi fyrir því að eftir ekki svo langan tíma yrðu gjaldeyrishöftin afnumin. Eins og þetta er núna hef ég grun um að mjög margir hinna svokölluðu krónubréfaeigenda séu tiltölulega rólegir með krónubréfin og taki jafnt og þétt út vextina af þeim og hafi ekki sérstakar áhyggjur af því þó að gjaldeyrishöftin séu í gildi, þ.e. þeir sem eru hvort eð er fastir. Ef það er gert að stefnu að afnema gjaldeyrishöftin fljótlega þá gæti komist hreyfing á þetta og Seðlabankinn fengið betra verð fyrir þann gjaldeyri sem hann selur.

Samhliða þessu þarf líka að gera heildarúttekt á peningamálastefnunni sem rekin hefur verið í landinu undanfarinn áratug og lengur. Ég held að það sé óhætt að segja hvað sem líður bankahruninu að stefnan hefur ekki haft tilætluð áhrif, hefur ekki virkað. Það þarf með öðrum orðum alveg nýja nálgun. Það er mikilvægt að óháðir sérfræðingar verði fengnir til að gera þá úttekt svo að þeir sem hafa hannað þessa stefnu og rekið hana verði ekki settir í þá stöðu að meta kosti hennar og galla. Þegar slík úttekt hefur farið fram er fyrst hægt að gera trúverðuga áætlun um sterkari peningamálastefnu til framtíðar, peningamálastefnu sem löguð er að íslenskum aðstæðum betur en sú sem hér hefur verið rekin.

Jafnframt erum við að mynda þverpólitískan hóp, ég held að það sé mjög mikilvægt að allir flokkar komi að því, um gjaldmiðilsmálin til að fara í eitt skipti fyrir öll yfir framtíðarkosti í þeim málum. Þar hafa mjög margir kostir verið nefndir en það má ljóst vera að það þýðir ekki lengur að einblína á upptöku evru með aðild að Evrópusambandinu, enda blasir við að Ísland mun alla vega ekki ganga í Evrópusambandið á næstu árum og jafnvel þó að af því yrði þá yrði evran ekki tekin upp fyrr en eftir mörg ár. Ég held að Tékkar séu búnir að fresta áætlun sinni um upptöku evru frá 2015 til 2018 a.m.k. þó að þeir séu búnir að vera í Evrópusambandinu alllengi og lengi verið í þessu ferli. Þeir gera sér hins vegar grein fyrir því að þeir munu ekki taka upp evru á næstunni. Við þurfum í þessu eins og öðru að taka mið af þeim aðstæðum sem uppi eru í stað þess að hengja okkur í einhver áform sem sérstaklega einn flokkur lagði upp með fyrir mörgum árum þegar aðstæður voru allt aðrar.

Ég þarf að fara að hraða mér því að tíminn styttist hjá mér.

Þriðja atriðið eru framkvæmdir og atvinna. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er reyndar búinn að mæla fyrir miklum bálki tillagna í atvinnumálum og þetta tengist því auðvitað en hér er farið yfir það hvernig ríkisvaldið getur komið að atvinnuuppbyggingu. Frá síðustu kosningum hefur verið talað um mikilvægi þess að ráðist yrði í vinnuaflsfrekar opinberar framkvæmdir og auðvitað verða þær að vera hagkvæmar til langs tíma litið og helst að spara ríkinu pening eða afla því tekna til langs tíma en mjög lítið hefur orðið úr þeim áformum. Hér er rakið hvers vegna mikilvægt er að breyta því. En mikilvægast af öllu er að breyta þarf skattstefnu með þeim hætti að slíkar framkvæmdir verði fýsilegar fyrir einkaaðila og fjárfesting verði fýsilegur kostur.

Ég ætla að hlaupa yfir fjórða atriðið, sem varðar ríkisfjármál, ég mun fara betur yfir það á eftir, og vinda mér beint í það fimmta sem er skattstefnan og skattkerfisbreytingarnar sem ráðast þarf í. Það er orðið mjög aðkallandi og brýnt og nauðsynlegt eins og við sjáum af reynslunni að lækka skattálögur og sérstaklega tryggingagjaldið, sem er í raun skattur á atvinnusköpun og hefur haft mjög óæskileg áhrif og haldið niðri mannaráðningum eða því að fyrirtæki sæju ástæðu til að fjölga fólki. Þessu til viðbótar þarf að einfalda skattkerfið allt. Það sem menn reka sig á aftur og aftur þegar þeir fara yfir þau fjárfestingarverkefni sem verið hafa til skoðunar undanfarin tvö, þrjú ár er að menn setja fyrir sig þessar endalausu flækjur í skattkerfinu og hækkanir skatta. Það þarf með mjög róttækum hætti að einfalda skattkerfið. Með því móti væri ekki verið að draga úr tekjum ríkisins heldur þvert á móti að hvetja til þess að sú verðmætasköpun sem er forsenda þess að tekjurnar geti aukist ættu sér stað.

Fjármagnstekjuskattur þarf að miðast við raunverulega ávöxtun. Það er ekki svoleiðis núna þannig að fyrir vikið skortir mjög á þann sparnað sem þarf að eiga sér stað í landinu og sparnað sem til að mynda heldur stöðu Þýskalands jafnsterkri og hún er núna.

Í lok V. kafla er persónuafslátturinn og mikilvægi þess að hækka hann í einfaldara (Forseti hringir.) skattkerfi því að það er í raun besta kjarajöfnunarleiðin.